Ísland er eftirbátur Norðurlanda þegar kemur að stafrænni þjónustu hins opinbera. Þetta eru niðurstöður skýrslu sem hag-og félagsmáladeild Sameinuðu Þjóðanna birtu nú á dögunum.
Skýrslan skoðar stafræna stjórnsýslu í 193 löndum, en markmið hennar er að meta getu landanna til að takast á við alheimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna árið 2030. Þetta er í tíunda skiptið sem samtökin birta viðlíka skýrslu og er hún byggð á nokkrum vísitölum sem bera saman þróun landanna í ýmsum málaflokkum stafrænnar stjórnsýslu.
75. sætið af 193
Einn þessara málaflokka mælir þátttöku borgara í opinberri vefþjónustu sem snýr ákvarðanatöku ríkisins. Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að Ísland sé eftirbátur margra þjóða þegar kemur að því, en landið er í 75. sæti á heimsvísu. Hin Norðurlöndin eru öll mun ofar á listanum, en Danmörk og Finnland deila efsta sæti hans. Noregur er svo í ellefta sæti listans og Svíþjóð í því nítjánda.
Neðst allra Norðurlanda
Einnig var vísitala fyrir þróun í rafrænni stjórnsýslu milli landa birt í skýrslunni. Eftir sem áður var Ísland þar eftirbátur annarra Norðurlanda, en þó nokkuð ofarlega miðað við önnur lönd í nítjánda sæti. Helstu þættirnir sem drógu Ísland upp í vísitölunni var helst há einkunn á gæði mannauðsins, en aðrir þættir skoruðu ekki jafnhátt.
Samkvæmt skýrslunni er staða Íslands í vísitölunni til marks um að tækniþróun í rafrænni stjórnsýslu sé á betri stað en þjónusta þeirra gefur til kynna. SÞ nefnir þar sérstaklega Ísland í því tilliti ásamt Mónakó og Hvíta-Rússlandi, en fjarskiptainnviðir og mannauður landanna þriggja hefur þróast hraðar en vefþjónustan.
Ráðgjafastofan Fúnksjón gerði niðurstöður skýrslunnar að umtalsefni á Facebook-síðu sinni fyrr í vikunni, en samkvæmt þeim hefur Ísland farið upp um átta sæti frá könnun samtakanna fyrir tveimur árum síðan. Fúnksjón telur einnig að nýleg fyrirheit ríkisstjórnarinnar um þennan málaflokk gefi von um að miklar úrbætur verði á þessu sviði á næstu árum.