Apple varð í vikunni fyrsta skráða félagið í heiminum til að ná verðmiða upp á eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 107 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Vöxtur fyrirtækisins hefur verið ævintýralegur á undanförnum árum og án fordæma. Lykillinn að velgengni fyrirtækisins hefur verið snjallasímavæðingin í heiminum, sem Apple leiddi lengi vel, eftir að hafa kynnt fyrsta iPhone símann til sögunnar, 9. janúar 2007.
Nú er búið að selja meira en einn milljarð snjallsíma undir merkjum Apple. Til viðbótar er síðan öll önnur starfsemi, eins og útgáfa á spjaldtölvum, App Store, og fleiri lykilvörum fyrirtækisins á undanförnum árum.
After Apple became the first American company to hit $1 trillion in market value, CEO Tim Cook told employees to keep their eye on the ball https://t.co/hRxThhTO8P pic.twitter.com/ihHyOvosy3
— CNN (@CNN) August 3, 2018
Helsta „vandamál“ stjórnenda fyrirtækisins á undanförnum árum hefur verið að ákveða hvað eigi að gera við peningana sem fyrirtækið hefur fengið í kassann. Efnahagur fyrirtækisins er með ólíkindum sterkur, en um þessar mundir er fyrirtækið með tæplega 250 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé frá rekstri.
Til að setja þá peninga í samhengi, þá gæti félagið keypt allan íslenska hlutabréfamarkaðinn 25 sinnum, fyrir þá fjárhæð.
Fyrir þá peninga mætti einnig kaupa Goldman Sachs (89 ma. dala), Morgan Stanley (90 ma. dala) og General Motors (53 ma. dala) og samt væru 17 milljarðar Bandaríkjadala eftir í lausu fé.
Að undanförnu hefur Apple ákveðið að hækka arðgreiðslur til hluthafa, fjárfesta í bandarísku atvinnulífi og styrkja félagið með heildrænni áætlun. Í janúar tilkynnti félagið um 350 milljarða Bandaríkjadala fjárfestingar í Bandaríkjunum, á næstu 5 árum.