Stuðningur við Vinstri græna og ríkisstjórnina dalar, en ríkisstjórnin nýtur í fyrsta skipti stuðnings minnihluta kjósenda ásamt því að fylgi VG hefur ekki mælst minni frá 31. desember 2015. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Fylgi Vinstri grænna mælist í 10,7 prósentum og hefur lækkað um 0,8 prósentustig milli mánaða. Með því hefur fylgisaukning flokksins í kjölfar birtingar Panamaskjalanna árið 2016 horfið og stuðningur við hann ekki mælst lægri síðan í árslok 2015, en þá var fylgi hans um 10,2 prósent.
Sömuleiðis hefur stuðningur við ríkisstjórnina minnkað, en hann mælist nú í 49,7% sem eru lægstu stuðningstölur sem mælst hafa fyrir þessa ríkisstjórn. Stuðningurinn lækkar úr 54 prósentum frá síðasta mánuði, en í fyrsta Þjóðarpúlsi Gallup mældist hann í 74 prósentum.
Samkvæmt þjóðarpúlsinum eru stærstu hreyfingarnar á fylgi flokka innan Viðreisnar, en flokkurinn lækkar um tæplega tvö prósentustig milli mánaða og mælist nú í um 8,7 prósentum. Samhliða því eykst fylgi Samfylkingarinnar um tæplega tvö prósentustig, eða úr 15 prósentum upp í 16,7 prósent.
Fylgi annarra flokka breytist lítillega, en fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist í 24,6 prósentum, Pírata í 13,9 prósentum, Framsóknarflokksins í 9,2 prósentum, Miðflokksins í 8,6 prósentum og Flokks fólksins í sléttum 6 prósentum.