Jón Kalman Stefánsson rithöfundur segir ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis, að hafa boðið Piu Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfund Alþingis, klaufalega og ætti hann að biðjast afsökunar, segja af sér og leyfa öðrum að taka við.
Þetta kemur fram í pistli sem Jón skrifar í danska blaðið Information og birtist í dag en Kvennablaðið greindi fyrst frá hér á landi.
Miklar umræður spruttu upp í kjölfar komu Kjærsgaard til landsins þegar hún hélt ávarp á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum þann 18. júlí síðastliðinn. Margir gagnrýndu aðkomu hennar og ákváðu Píratar til að mynda að sniðganga þjóðfundinn og gekk þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, af fundinum þegar Kjærsgaard tók til máls.
Jón segir í grein sinni að Íslendingar standi frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir geta ekki litið í hina áttina á meðan fasismi læðist aftan að Evrópubúum. Hann ber saman stjórnmálaskoðanir Kjærsgaard við aðferðafræði Donalds Trump í Bandaríkjunum og Marine Le Pen í Frakklandi. Hann segir jafnframt að stjórnmálamenn eins og Kjærsgaard bjóði upp á einfaldar lausnir við flóknum vandamálum eins og fyrrnefnd skoðanasystkini.
Hann spyr sig hvort við eigum að sætta okkur við það að fasismi herji nú á hinn vestræna heim dulbúinn með grímu lýðræðis sem býður upp á framtíð þar sem hatur og umburðarleysi gagnvart öðrum skoðunum kemur í staðinn fyrir samræðu og leit eftir samkennd.
Steingrímur J. Sigfússon sendi frá sér tilkynningu þann 19. júlí síðastliðinn þar sem hann sagðist harmar að heimsókn danska þingforsetans hefði verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og sagðist hann leyfa sér að trúa því að það væri minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir Íslendinga heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði einnig gagnrýninn pistil vegna komu Kjærsgaard til landsins sem bar titilinn „Um kurteisi“ og birtist fyrst á Kjarnanum. Dönsk þýðing pistilsins birtist svo í Information, ásamt skýringu á orðinu „Stórdani“ sem á að lýsa hrokafullu viðmóti Dana í garð Íslendinga.
Kjærsgaard sagði í kjölfarið skrif Guðmundar Andra lykta af hræsni, móðursýki og „íslenskri minnimáttarkennd.“ Guðmundur svaraði gagnrýninni og sagði hana byggjast á sýn Stórdanans á Íslendinga.
Kjarninn fjallaði um Piu Kjærsgaard þegar umræðurnar spruttu upp vegna komu hennar hingað til lands. Hún er einn stofnenda Danska þjóðarflokksins og leiddi flokkinn á árunum 1995 til 2012. Hún er einn þekktasti stjórnmálamaður í Danmörku í dag og hefur talað hart gegn fjölmenningu og innflytjendum og íslam sérstaklega.
Árið 2001 skrifaði Kjærsgaard í fréttabréf flokksins að múslimar væru lygarar, svindlarar og svikarar. Hún var kærð fyrir þessi ummæli en ekki ákærð af yfirvöldum. Ári síðar var hún sektuð fyrir að hóta konu með piparúða, sem að auki var brot gegn dönskum vopnalögum. Kjærsgaard sagði sér til varnar að hún hafi upplifað sér ógnað og talaði í kjölfarið fyrir breytingu á lögunum, svo eitthvað af afrekum hennar séu nefnd. Þá hefur hún beitt sér fyrir því að lokað sé fyrir útsendingar arabískra sjónvarpsstöðva í Danmörku, þar sem þær flyttu hatursáróður og vildi að öllum innflytjendum sem gerst hefðu brotlegir við dönsk lög yrði vísað úr landi.