Alls létust rúmlega 26 þúsund manns vegna hryðjuverka árið 2017, sem er 24 prósenta fækkun frá því á árinu á undan. Fjöldi fórnarlamba hefur fækkað töluvert á Mið-Austurlöndum og í Evrópu, en þeim fór nokkuð fjölgandi í Suð-Austur Asíu og Norður-Ameríku í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum gögnum Global Terrorism Database.
Gögnin eru gefin út af Landssamtökum Bandaríkjanna í átakafræðum við háskólann í Maryland, en þau hafa greint frá hverri einustu skilgreindu hryðjuverkaárás í heiminum frá árinu 1970. Enn fremur fylgir stutt lýsing á hverri árás sem átt hefur sér stað frá árinu 1997.
Samkvæmt gögnunum voru alls 10.900 hryðjuverkaárásir framkvæmdar í heiminum í fyrra. Meirihluti þeirra sér stað í fjórum löndum: Írak (23%), Afghanistan (13%), Indland (9%) og Pakistan (7%). Alls létust 26.400 manns vegna þeirra, en það er lækkun um 24% miðað við í fyrra. Meira en helmingur manntjónsins var þremur löndum: Írak (24%), Afghanistan (23%) og Sýrlandi (8%).
Minna í Mið-Austurlöndum, meira í Norður-Ameríku
Þrátt fyrir að stór hluti hryðjuverkaárása og manntjóns vegna þeirra hafi átt sér stað í Mið-Austurlöndum fór þeim þó fækkandi milli 2016 og 2017, en þau lækkuðu um meira en helming í Tyrklandi, Yemen, Sádí-Arabíu og Líbíu. Sömuleiðis fækkaði dauðsföllum í Evrópu um tæpan helming milli ára, mest í Vestur-Evrópu. Á hinn bóginn fjölgaði hryðjuverkaárásum í Nepal, Kamerún, Myanmar og Keníu um meira en helming. Í Bandaríkjunum stórjókst einnig manntjón vegna hryðjuverka milli ára, einkum vegna árásarinnar í Las Vegas í október.
Mannskæðustu hryðjuverkasamtökin voru þau sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIL), en manntjón vegna þeirra nam rúmum sjö þúsundum. Hins vegar hefur dauðsföllum vegna árása samtakanna lækkað ört milli ára, eða um 40 prósent frá árinu 2016. Önnur skæð samtök eru Talíbanar með tæp fimm þúsund fórnarlömb og Al-Shabaab með tæp tvö þúsund fórnarlömb.