Heildarvelta Jarðbaðanna við Mývatn árið 2017 var 821 milljón króna og jókst um 13,2 prósent frá fyrra ári þegar veltan nam 725 milljónum króna. Baðstaðurinn skilaði hagnaði upp á 309 milljónir króna á síðasta ári borið saman við 302 milljóna króna hagnað árið 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi Jarðbaðanna hf. fyrir síðasta ár.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar kemur fram að um 220 þúsund manns hafi heimsótt Jarðböðin í fyrra og hafa gestirnar aldrei verið fleiri en gert sé ráð fyrir að þeim fjölgi um fimm prósent í ár.
„Í ársreikningi baðstaðarins segir að ákveðið hafi verið að hefja framkvæmdir við nýtt og stærra baðhús og baðlón þar sem núverandi aðstaða anni vart lengur þeim mikla fjölda gesta sem sækir böðin, sér í lagi á háannatíma. Gera áætlanir stjórnenda ráð fyrir að ný aðstaða verði tilbúin á árinu 2020.
Jarðböðin voru um síðustu áramót metin á um 4,5 milljarða króna í bókum stærsta hluthafans, fjárfestingafélagsins Tækifæris, en virði baðstaðarins jókst um 1,3 milljarða króna á síðasta ári,“ segir í fréttinni.