Atvinnuleysi á fyrsta og öðrum ársfjórðungi hefur ekki minnkað frá því á sama tímabili í fyrra. Þetta er í fyrsta skiptið sem atvinnuleysið minnkar ekki milli ára frá árinu 2011, auk þess sem hlutfall starfandi minnkar á báðum ársfjórðungum í fyrsta skipti frá 2011. Þetta kemur fram í nýbirtum vinnumarkaðstölum Hagstofu.
Samkvæmt tölunum voru að jafnaði 205.400 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi. Af þeim voru 198.100 starfandi og 7.300 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka var 83%, hlutfall starfandi 80% og atvinnuleysi var 3,6%. Ef borið er saman við sama tímabil í fyrra fjölgaði starfandi fólki um 2.900 en hlutfall starfandi af mannfjölda lækkaði hins vegar um 1,5 prósentustig. Atvinnuleysi jókst um 0,2 prósentustig, en um 300 fleiri voru atvinnulausir á vormánuðum í ár miðað við í fyrra.
Ef litið er til þróunar síðustu ára á vinnumarkaði sést að atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi hefur minnkað hratt frá árinu 2011 þegar það náði methæðum í tæpum 9 prósentum. í ár hefur atvinnuleysið hins vegar aukist lítillega, en það er í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá 2011. Tölur Hagstofu frá fyrsta ársfjórðungi benda einnig á sömu þróun, en þar var atvinnuleysi nær óbreytt frá því á sama tímabili í fyrra.