Rekstraraðili meðferðarheimilis á Laugalandi í Eyjafirði fyrir börn greiddi sér 42 milljónir króna í arð út úr rekstrinum, eftir að hafa stofnað einkahlutafélag um reksturinn en ríkið leggur heimilinu til rekstrarfé.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Laugaland er einkarekið meðferðarheimili fyrir ungmenni í vímuefnavanda og starfar samkvæmt rekstrarsamningi og undir yfirstjórn Barnaverndarstofu, sem sinnir jafnframt eftirliti með heimilinu. Félagið Pétur G. Broddason ehf., samnefnt eigandanum, var stofnað vegna rekstursins.
Í viðtali við Fréttablaðið segir Pétur að greiðslurnar séu lögum samkvæmt og þær séu hluti af hans launum fyrir að reka meðferðarheimilið.
Ríkisendurskoðun hvatti á árinu 2011 velferðarráðuneytið til að taka afstöðu til einkarekinna meðferðarheimila sem rekstrarforms. Þremur árum síðar skýrði ráðuneytið Ríkisendurskoðun frá því að í burðarliðnum væri stofnun til að taka að hluta til við verkefnum einkarekinna meðferðarheimila, að því er segir í Fréttablaðinu.