Fyrsta starf að námi loknu skiptir miklu máli. Taki útskrifaðir námsmenn við starfi sem þeir eru ofmenntaðir fyrir þá eru jafnan meiri líkur en minni á að erfitt verði síðar meir að komast í starf sem betur hæfir menntastigi, jafnvel þó að þess sé óskað.
Þetta er meðal þess sem er til umfjöllunar í grein Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA frá Harvard Business Schoool, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
„Þá gera vinnuveitendur sífellt strangari kröfur til þeirra sem eru nýir á vinnumarkaði og vilja í auknum mæli sjá viðeigandi reynslu á ferilskránni, hvort sem er úr sumarstörfum eða hlutastörfum sem unnin voru meðfram námi. Þetta er niðurstaða rannsóknar Strada, stofnunar um framtíð vinnu og menntunar, og Burning Glass Technologies, hugbúnaðarfyrirtækis sem vinnur með vinnumarkaðsgögn. Á sama tíma sýnir ný rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD að hin dæmigerðu „fyrstu störf“, þ.e.a.s. störf sem stúdentar sinna oft samhliða námi eða í sumarstarfi og eru tilgreind sem helsta starfsreynsla á umsóknum um fyrsta starf úr skóla, eru meðal þeirra starfa sem hvað líklegust eru til að verða gervigreindarvædd á næstu árum. Þessar breytingar eru, sérstaklega þegar þær eru allar skoðaðar í samhengi, áminning um mikilvægi þess að beina athygli að störfum þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði samhliða eða að loknu starfs-, framhaldsskóla- eða háskólanámi,“ segir Lilja meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.