Hlutfall fyrirtækja á meðal leigusala íbúðarhúsnæðis hefur aukist úr 21 prósent árið 2011 í 41 prósent í ár. Einstaklingar voru 73 prósent leigusala fyrir sjö árum en eru nú 57 prósent þeirra. Hlutur fjármálastofnana á leigusalamarkaðinum hefur dregist saman úr sjö prósentum í upphafi tímabilsins í tvö prósent nú. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Fjallað er um þessa þróun á vef Íbúðalánasjóðs. Þar segir að greiningin fyrir árið 2018, sem byggi á 5.622 leigusamningum sem þinglýst var á mánaðartímabili í sumar, gefi góða vísbendingu um stöðu leigumarkaðarins og þróun hans í gegnum tíðina. Þrátt fyrir að einstaklingar séu enn algengasti leigusalinn hafi fyrirtæki aukið hlut sinn hratt og hlutdeild fjármálafyrirtækja, sem sátu enn uppi með umtalsvert magn íbúðarhúsnæðis eftir hrunið á árinu 2011, hefur minnkað mikið.
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast á síðustu átta árum samhliða því að hagnaðardrifin leigufélög hafa orðið fyrirferðameiri á íslenska leigumarkaðinum. Þar ber helst að nefna félög á borð við Heimavelli og Almenna leigufélagið.
Í maí sendi Íbúðalánasjóður 20 leigufélögum sem eru með lán frá sjóðnum bréf þar sem kallar er eftir upplýsingum um verðlagningu leiguíbúða í þeirra eigu, og eftir atvikum um hækkanir á húsaleigu þeirra til leigutaka. Í bréfinu var kallað eftir svörum um hvort og þá hvernig skilyrðum reglugerðar um lán sjóðsins séu uppfyllt. Á meðal þeirra sem hafa fengið lán frá sjóðnum eru hagnaðardrifin leigufélög.
Stærstu hagnaðardrifnu leigufélög landsins hafa varið hækkanir sínar með þeim rökum að þau hafi eingöngu verið að „aðlaga“ leigusamninga fasteignasafna sem þau hafi keypt af ríkinu að markaðsverði.