Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar og þingmaður Vinstri grænna, segir eðlilegt að veiða hval hér við land og telur orðspor Íslands ekki hafa skaðast af slíkum veiðum. Þessi viðhorf stangast á við samþykkt Vinstri grænna á flokksþingi árið 2015 þar flokkurinn lagðist gegn hvalveiðum. Vísir greinir fyrst frá.
Opinberu fé „kastað á glæ“ til áhugamanna
Í frétt Vísis er vísað til landsfundarályktana Vinstri grænna eftir flokksþing á Selfossi árið 2015, en þar stendur að flokkurinn leggist „eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur.“ Stefnu sinni til stuðnings nefnir flokkurinn að ómannúðlegum veiðiaðferðum sé beitt við veiðarnar, „til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna.“ Enn fremur sé opinberu fé kastað á glæ til að styrkja þessa áhugamenn, þrátt fyrir að veiðarnar séu litnar hornauga innan margra alþjóðlegra stofnana.
Samkvæmt Vísi telur Lilja Rafney þó eðlilegt að lög um hvalveiðar verði endurmetin með það sjónarmið í huga að hvalveiðar séu eðlilegar. „Ég hef verið inni á þeirri skoðun að Íslendingar eigi að viðhalda sínum rétti til sjálfbærra veiða á þeim hvalategundum og þeim stofnunum sem taldir eru sjálfbærir og nýtanlegir,“ segir þingmaðurinn.
„Enginn rökstuðningur“ fyrir slæmu orðspori
Hins vegar telur Lilja Rafney eðlilegt að ríkið skoði þessar veiðar ef einhver óskar þess. „Það geta komið ábendingar frá ferðaþjónustunni til dæmis og mér finnst sjálfsagt ef það kemur ósk um slíkt að stjórnvöld taki stöðuna og skoði það,“ bætir hún við. Aðspurð um hvort hún telji orðspor Íslands hafa skaðast af þessum veiðum telur Lilja ekki svo vera og segir: „Ég hef ekki forsendur til að meta það og hef ekki séð rökstuðning sem segir að það skaði okkar orðspor heilt yfir.“