Hlutabréf í Skeljungi hækkuðu um rúm 9 prósent í rúmlega 400 milljóna króna viðskiptum í morgun. Skeljungur sendi í gær frá sér afkomutilkynningu þar sem fram kemur að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) félagsins verður líklegast 300 milljónum krónum meiri á árinu 2018 en áður hafði verið áætlað. Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Í afkomutilkynningunni kemur fram að félagið hafi ákveðið miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir að hækka EBITDA spá ársins 2018 úr 2.800 til 3.000 milljónir króna í 3.100 til 3.300 milljónir króna en að áætlun varðandi fjárfestingar haldist óbreytt, það er 750 til 850 milljónir króna.
„Við vinnslu á árshlutauppgjöri og uppfærðri áætlanagerð fyrir árið 2018 kom í ljós að horfur eru á að afkoma ársins í heild verði betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helsta ástæða fyrir betri afkomu á fyrri helmingi ársins en gert hafði verið ráð fyrir helgast af betri afkomu af eldsneytissölu. Meiri sala var á flugeldsneyti og á eldsneyti til erlendra skipa en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hefur áætlun félagsins fyrir seinni hluta ársins verið hækkuð í takt við betri horfur.“
Jafnframt er fyrirvari um að breytingar á EBITDA spánni séu ekki byggðar á endanlegu uppgjöri, endurskoðuðum eða könnuðum niðurstöðum. Skeljungur vinni enn að árshlutauppgjöri og forsendur og aðstæður geti tekið breytingum og þar af leiðandi geti afkoma félagsins af fyrstu sex mánuðum ársins, sem og vænt ársafkoma félagsins, orðið frábrugðin núverandi horfum.
Félagið mun birta uppgjör fyrri árshluta 2018 eftir lokun markaða þriðjudaginn 28. ágúst næstkomandi.