Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur brugðist við atburðum síðustu daga en á Twitter-síðu sinni í dag segir hann að ef fólk ætli sér að leita að lögfræðiþjónustu ætti það ekki að sækja hana til Michael Cohens.
Cohen er fyrrverandi lögfræðingur Trumps en í gær játaði hann á sig umfangsmikil fjár- og skattsvik. Hann hefur undanfarið verið til rannsóknar vegna mögulegra skattsvika og fleiri svika við fjármálastofnanir, og hefur sekt hans nú verið sönnuð og viðurkennd.
Tengdist hún meðal annars 20 milljóna Bandaríkjadala lánveitingum til fjölskyldureksturs hans, á sviði leigubílastarfsemi.
Hann sagðist enn fremur hafa greitt tveimur konum að beiðni Trumps Bandaríkjaforseta, til að tryggja að þær myndu ekki tala um samband sitt við forsetann.
Cohen sagði að greiðslurnar hefðu átt að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016. Þetta er brot á lögum um fjármögnun kosningabaráttu, og segir á vef CNN að margir telji Trump sjálfan nú vera í vandræðum. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn, hvað þetta varðar, en Trump hefur enn ekki tjáð sig um þessi mál.
Annarri konunni greiddi Cohen 150 þúsund Bandaríkjadali en hinni, klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels, greiddi hann 130 þúsund Bandaríkjadali. Var það gert til að Daniels þegði um samband hennar og Trump sem varði í stuttan tíma, á meðan hann var kvænt Melaniu Trump, eiginkonu sinni og forsetafrú.
Daniels steig fram fyrr á árinu og sagði að sér hefði verið hótað ef hún myndi tjá sig um sambandið við forsetann, en hún gerði það samt, og leiddi það meðal annars til þess að rannsókn hófst á Cohen. Var húsleit framkvæmd á skrifstofu hans í apríl og hefur rannsókn staðið yfir síðan.
If anyone is looking for a good lawyer, I would strongly suggest that you don’t retain the services of Michael Cohen!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 22, 2018
Kennir í brjósti um Manafort
Trump virðist hafa meiri samúð með Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra sínum, en forsetinn tjáir sig um skattsvik hans á Twitter í dag.
Þá segir hann að hann kenni í brjósti um Manafort og fjölskyldu hans. Að „réttlætið“ hafi tekið 12 ára gamalt mál og lagt gríðarlegt álag á manninn. Hann hafi þó ekki „brotnað“ á sama hátt og fyrrnefndur Cohen. Trump segist bera mikla virðingu fyrir slíkum hugrökkum manni.
Paul Manafort var í gær sakfelldur fyrir skattsvik, bankasvik og fyrir að hafa ekki greint frá innistæðum leynilegra félaga í skattaskjólum.
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum túlka dóminn sem sigur fyrir sérstakan saksóknara, Robert S. Mueller, og starfsmenn hans.
Þeir ákærðu Manafort fyrir að fela milljónir Bandaríkjadala á aflandsreikningum til þess að forðast skatta og að hafa logið ítrekað til þess að geta fengið 20 milljónir dollara að láni hjá fjármálastofnunum.
I feel very badly for Paul Manafort and his wonderful family. “Justice” took a 12 year old tax case, among other things, applied tremendous pressure on him and, unlike Michael Cohen, he refused to “break” - make up stories in order to get a “deal.” Such respect for a brave man!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 22, 2018