Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að á meðan hann sé dómsmálaráðherra þá muni ráðuneyti hans ekki láta pólitískan þrýsting hafa áhrif á störf þess.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt Sessions, meðal annars fyrir að láta rannsókn Roberts Muellers, saksóknara, óáreitta.
Trump hefur viljað að dómsmálaráðuneytið stoppi rannsóknina, en hún beinist að því hvort Rússar hafi beitt áhrifum sínum til að hafa áhrif á framgang kosninganna í Bandaríkjunum 2016.
Sessions er sagður standa fastur á því, að láta Trump ekki hafa áhrif á þá sem stýra rannsókninni, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.
Óhætt er að segja að Trump sé undir miklum þrýstingi þessi misserin, eftir að fyrrverandi kosningastjóri hans, Paul Manafort, og persónulegur lögmaður hans til margra ára, Michael Cohen, voru fundnir sekir um lögbrot, þar á meðal skatt- og fjársvik, en Cohen játaði enn fremur að hafa greitt tveimur konum sem Trump átti í leynilegu ástarsambandi við, samtals tæplega 300 þúsund Bandaríkjadali, fyrir að þaga um sambandið við Trump. Cohen staðfesti að Trump hefði vitað af greiðslunum og fyrirskipað þær.
NO COLLUSION - RIGGED WITCH HUNT!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 23, 2018
Trump lét hafa eftir sér í dag, að ef hann yrði þvingaður til að hætta sem forseti Bandaríkjanna, þá myndi það þýða hrun á verðbréfamörkuðum og miklu lakari staða efnahagsmála. „Margir yrðu mjög, mjög fátækir,“ sagði hann í viðtali við Fox News.