Guðmundur Hjaltason, annar ákærðu í Vafningsmálinu svonefnda, hefur stefnt íslenska ríkinu til greiðslu skaða- og miskabóta vegna málsmeðferðar í málum saksóknara gegn sér.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og segir lögmaður Guðmundar, Þórður Bogason, að í málinu reyni á hvort ríkið sé bótaskylt gagnvart Guðmundi.
„Um leið eru dómstólar í raun spurðir hvort embætti sérstaks saksóknara, með fulltingi löggjafans, hafi farið offari gegn einstaklingum sem unnu í bankakerfinu fyrir hrun og brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra. Málið snýst þannig um grundvallarspurningar um viðbrögð þjóðfélags við efnahagshruni og hversu langt er hægt að ganga gagnvart einstaklingum á grundvelli þess að þeir hafi unnið í ákveðnum geirum atvinnulífsins,“ segir Þórður, í viðtali við Fréttablaðið.
Guðmundur var frá 2006 og til maí 2008 framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, en bankinn féll eins og Kaupþing og Landsbankinn, dagana 7. til 9. október 2008.
Allt fram á árið 2016 hafði Guðmundur réttarstöðu grunaðs manns hjá embættinu en ein ákæra var gefin út á hendur honum.
Í Vafningsmálinu var Guðmundi og Lárusi Welding, þá bankastjóra Glitnis, gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með 102 milljóna evra láni til félagsins Milestone föstudaginn 8. febrúar 2008. Það samsvaraði um tíu milljörðum króna á útborgunardegi. Tvímenningarnir voru sakfelldir í héraði í árslok 2012 og dæmdir til níu mánaða fangelsisvistar hvor. Sex mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir. Í Hæstarétti, rúmu ári síðar, voru þeir hins vegar sýknaðir þar sem ekki þótti sannað að háttsemi sú sem Guðmundi og Lárusi var gefin að sök hefði falið í sér verulega fjártjónshættu fyrir Glitni.