Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, skrifar opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, og birtir í dag. Hún segist meðal annars ekki geta skilið aðgerðarleysi og skeytingarleysi ráðherra á annan hátt en að hann sé algjörlega úr tengslum við veruleikann sem blasir við flestum öðrum: Að fatlað og langveikt fólk býr við mikla fátækt.
„Það hlýtur að vera, því, annars hefðir þú sennilega þegar séð til þess að fólkið með lægstu tekjurnar geti raunverulega lifað af þeim – rétt eins og þú hefur sýnt í orði og verki að þeir sem mest hafa fyrir skuli ávallt fá meira,“ segir hún í bréfinu.
Hún segist þó vera bjartsýn að eðlisfari og leggi alltaf af stað með það að hafa trú á fólki, trúa því að þeir sem veljast til starfa fyrir þjóðina sinni starfi sínu af alúð, heiðarleika og réttsýni. Hún segir að jákvæðar aðgerðir stjórnvalda í garð örorkulífeyrisþega séu nauðsynlegar strax, áratuga þolinmæði þeirra sé á enda.
Öryrkjar hafa setið eftir
Þuríður Harpa segir að öryrkjar sé sá hópur í samfélaginu sem hefur algjörlega setið eftir þegar kjör annarra hafa verið leiðrétt. Þetta sé að stórum hluta fátækt fólk sem bíður eftir réttlæti.
„Háttvirti ráðherra, í dag er brýn nauðsyn að forgangsraða í þágu þeirra sem minnsta framfærslu hafa, í þágu þeirra lægst launuðu, í þágu þeirra sem hrekjast um í velferðarkerfi sem ekki dugar nokkrum manni. Í dag er ekki þörf á að dæla peningum ríkisins í vasa þeirra sem hæstu launin hafa. Það er ekki forgangsatriði, vegna þess að það fólk lifir vel af launum sínum. Getum við verið sammála, Bjarni, um að brýnna er að veita vatni á þurran gróður en að bera í bakkafullann lækinn?
Þínu embætti fylgir gríðarleg ábyrgð. Þínar ákvarðanir hafa áhrif á landsmenn alla. Ekki bara þá ríkustu heldur líka þá allra fátækustu. Þú ert í því vandasama hlutverki að sjá til þess að þeir íbúar landsins sem búa við lægstu framfærsluna, geti lifað af henni. Hvað gerir þú til þess að svo megi verða? Í dag býr fjöldi fólks - „alvöru öryrkjar“ – við þá angist að eiga ekki fyrir nauðsynjum og vera eignalaus með öllu,“ segir Þuríður Harpa.
Hún tekur enn fremur fram að áhyggjur ráðherra af því að fólk/öryrkjar vilji ekki að vinna séu óþarfar. Fyrsta skrefið því til sönnunar væri að afnema „krónu á móti krónu“ skerðinguna strax. Með því móti myndi hann gera mörgum örorkulífeyrisþegum kleift að stunda vinnu. Þannig fengi fólk sjálft fyrstu 60.000 krónurnar af vinnulaunum sínum í stað þess að þetta fé fari beina leið aftur í ríkiskassann í formi skatta og skerðinga.
Hægt er að lesa bréfið í heild sinni á vefsíðu ÖSÍ.