Losun frá flugi til og frá Íslandi jókst líkt og fyrri ár milli ára. Aukning losunar var 13,2 prósent milli áranna 2016 og 2017. Árið 2016 var losunin 718.624 tonn af CO2 en varð á síðasta ári 813.745 tonn af CO2.
Þetta kemur fram í frétt Umhverfisstofnunar sem birtist í dag en uppgjöri rekstraraðila staðbundins iðnaðar og flugrekenda í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er lokið.
Alls gerðu fimm íslenskir flugrekendur og sjö rekstraraðilar iðnaðar upp heimildir sínar. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 813.745 tonn CO2 ígilda en í iðnaði var losunin 1.831.667 tonn af CO2 ígildum.
Þeim flugrekendum sem bar skylda til að gera upp losun sína fækkaði um einn, samkvæmt Umhverfisstofnun, og eru nú fimm. „Losun frá flugi er þó háð takmörkunum að því leytinu til að hún er einungis losun innan EES svæðisins og tekur því ekki á heildarlosun flestra flugrekenda, þar sem t.d. Ameríkuflug er ekki innan gildissviðs kerfisins eins og er,“ segir í fréttinni.
Losun í iðnaði jókst lítillega
Losunin í iðnaði jókst lítillega á milli ára, eða um 2,8 prósent, úr 1.780.965 tonnum af CO2 árið 2016 í 1.831.667 tonn af CO2 árið 2017. Jafnmargir rekstraraðilar í iðnaði gerðu upp fyrir árið 2017 og árið á undan, eða sjö talsins, samkvæmt Umhverfisstofnun.