Eftir rannsókn og gaumgæfilega skoðun er það mat yfirvalda á Púertó Ríkó að 2.975 hafi látist vegna fellibylsins Maríu, sem fór yfir eyjaklasann í fyrra, en fram að þessari yfirlýsingu stjórnvalda var opinber dánartala 64 mannslíf.
Ástæðan fyrir þessari miklu breytingu og hækkun á fjölda þeirra sem létust er ítarleg rannsókn sérfræðinga við George Washington háskóla og Harvard, sem leiddi þetta í ljóst. Í mati sérfræðinga George Washington háskóla þá er jafnvel talið að tala látinna sé mun hærri.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC segir að yfirvöld á eyjaklasanum hafi þegar óskað eftir því að fá 139 milljarða Bandaríkjadala frá bandaríska þinginu til að enduruppbyggingar, en eyjaklasinn heyrir undir Bandaríkin en íbúar þar eru 3,3 milljónir.
Íbúar og yfirvöld í Púertó Ríkó hafa harðlega gagnrýnt hversu litla hjálp hefur verið hægt að fá, en Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði eftir að fellibylurinn gekk yfir að blessunarlega hefði tekist að undirbúa eyjaklasann vel undir óveðrið og þannig komið í veg fyrir það tjón sem margir hefðu reiknað með.
Samkvæmt rannsókninni og endurmati á tjóni á eignum, mannvirkjum og manntjóni þá var skaðinn vegna fellibylsins miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu. Marga mánuði hefur tekið að greina tjónið og uppbyggingarstarf víða í lamasessi.