Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins (ESB) hélt áfram að lækka í júlímánuði og mældist þá 6,8 prósent. Það er lægsta atvinnuleysi sem mælst hefur innan sambandsins frá því fyrir fjármálahrunið sem varð haustið 2008. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Þar segir að fjöldi atvinnulausra innan Evrópusambandsríkjanna hafi verið 16,8 milljónir í júlí. Þar af bjuggu 13,3 milljónir þeirra innan þeirra ríkja sem eru með evru sem gjaldmiðil, en atvinnuleysi innan þess svæðis mældist 8,2 prósent og hefur einnig farið hratt lækkandi. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur innan evrusvæðisins frá því í lok árs 2008.
Atvinnulausum innan Evrópusambandsins hefur fækkað um 1,9 milljónir á einu ári. Dregið hefur úr atvinnuleysinu í öllum aðildarríkjunum 28. Mestur hefur samdrátturinn verið á Kýpur þar sem atvinnuleysi hefur farið úr 10,7 prósent í júlí 2017 í 7,7 prósent ári síðar. Í Grikklandi, þar sem atvinnuleysi er mest, hefur einnig orðið breyting til batnaðar og atvinnulausum fækkað úr 19,8 prósent vinnufærra manna í 21,7 prósent.
Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi í Bandaríkjunum var 3,9 prósent í júlí 2018. Á Íslandi er það 2,5 prósent samkvæmt nýjustu mælingum Hagstofu Íslands.
Atvinnulausum ungmennum fækkar mikið
Atvinnuleysi á meðal ungs fólks hefur lengi verið mikið vandamál í sumum Evrópusambandsríkjum. Í júlí voru 3,3 milljónir manna undir 25 ára aldri án atvinnu í löndum sambandsins.
Þeim ungmennum sem eru atvinnulaus í Evrópusambandinu hefur hins vegar fækkað um 466 þúsund á einu ári. Fæst ungmenn eru atvinnulaus í Þýskalandi (6,1 prósent) en flest í Grikklandi (39,7 prósent).