Íslandspóstur tapaði 161,2 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2018. Það er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 99,1 milljón króna hagnaði. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Íslandspósts.
Íslandspóstur reiknar með að tekjur sínar muni dragast saman um hátt í 400 milljónir króna á árinu 2018 vegna fækkunar á bréfasendingum. Ófjármagnaður kostnaður við alþjónustu var um 600 milljónir króna á síðastliðnu ári og áætlað er að hann muni nema um 700 milljónum króna á árinu 2018.
Í tilkynningu frá Íslandspósti vegna afkomu fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins segir að stjórnendur fyrirtækisins vinni nú að því „í samvinnu við stjórnvöld að leita leiða til að tryggja fjármögnun alþjónustunnar og laga hana að breyttum forsendum. Nauðsynlegt er að niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum á næstu mánuðum.“
Bréfasendingum fækkað um tólf prósent
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 fækkaði bréfasendingum umtalsvelt, líkt og þeim hefur gert á hverju ári í langan tíma, og þegar þær eru bornar saman við sama tímabil í fyrra nemur sá samdráttur um tólf prósentum. Í tilkynningunni segir að afkoma fyrirtækisins, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hafi versnað um 260 milljónir króna á tímabilinu og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir lækkaði um 349 milljónir króna. Á sama tíma hafi rekstrarkostnaður aukist um 285 milljónir króna á milli ára.
Þar skipti mestu máli að samdráttur í bréfamagni sem sent var hafi verið langt umfram spár.
Mikið tap af erlendum sendingum
Íslandspóstur segir að minnkandi bréfamagn hafi gert það að verkum að óhjákvæmilegt sé að endurskoða þjónustu fyrirtækisins. Undir alþjónustuskyldu ríkisins sem Íslandspóstur sinnir fellur m.a. móttaka, meðhöndlun og dreifing á sendingum frá útlöndum. „Mikil aukning hefur verið í netverslun frá útlöndum á undanförnum árum og þá sérstaklega frá Kína. Vegna óhagstæðra alþjóðasamninga þar sem Kína er flokkað sem þróunarríki fær Íslandspóstur mjög lágt gjald greitt fyrir þessar sendingar og standa þær greiðslur einungis undir litlum hluta þess kostnaðar sem fellur til við að meðhöndla þær. Mikið tap af þessum erlendu sendingum, sem Íslandi ber að sinna samkvæmt alþjóðasamningum, er stór hluti vandans við fjármögnun alþjónustunnar.“