Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum sem nefndin verðleggur, hækki um 4,86% þann 1. september næstkomandi.
Þar er smjör undanskilið en það mun hækka um 15 prósent. Vegin hækkun heildsöluverðs er 5,30%, að því er segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Lágmarksverð mjólkur til bænda hækkar um 3,52%, úr 87,40 kr. í 90,48 kr.
„Verðhækkunin er til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur, en síðasta verðbreyting fór fram 1. janúar 2017. Frá síðustu verðlagningu hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 3,60% og reiknuð hækkun vinnslu- og dreifingarkostnaðar afurðastöðva hækkað um 7,14%. Nefndin samþykkti þessa niðurstöðu en annar fulltrúi velferðarráðherra greiddi atkvæði gegn henni,“ segir í tilkynningu.
Verðlagsnefnd búvara er þannig skipuð:
- Friðrik Már Baldursson, formaður, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
- Margrét Gísladóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands
- Sindri Sigurgeirsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
- Rögnvaldur Ólafsson, tilnefndur af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
- Jóhanna Hreinsdóttir, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf.
- Ágúst Sigurður Óskarsson, tilnefndur af félags- og jafnréttismálaráðherra
- Ásta Björg Pálmadóttir, tilnefnd af félags- og jafnréttismálaráðherra