Samkomulag um gagnkvæm tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks á milli Japans og Íslands hefur tekið gildi. Samkomulagið var undirritað í maí síðastliðnum á vinnufundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Taro Kono, utanríkisráðherra Japans. Fyrsta árið verða gefin út allt að þrjátíu slík leyfi í hvoru landi.
Þetta kemur fram í frétt utanríkisráðuneytisins.
Samkvæmt ráðuneytinu gerir samkomulagið ungu fólki frá Japan og Íslandi kleift að sækja um skammtíma-dvalarleyfi sem gerir þeim kleift að taka að sér tilfallandi vinnu meðan á tímabundinni dvöl í hinu landinu stendur. Þannig fái ungt fólk mikilvæga innsýn í menningarhætti og atvinnulíf í fjarlægu landi.
Fyrir er Japan með slíka samninga við tuttugu lönd í Asíu, Eyjaálfu og Evrópu ásamt Norður- og Suður-Ameríku. Ísland er þrettánda Evrópulandið sem gerir slíkt samkomulag við Japan og þriðja innan Norðurlandanna, á eftir Danmörku og Noregi, segir í fréttinni.
Allar upplýsingar um skilyrði og umsóknarferli er nú að finna á vef Útlendingastofnunar. Umsækjendur þurfa meðal annars að vera íslenskir eða japanskir ríkisborgarar og á aldrinum 18 til 26 ára.