Jón Björnsson er hættur sem forstjóri Festar. Félagið rekur meðal annars verslanir Krónunnar og vöruhúsið Bakkann.
Jón hefur verið forstjóri Festar frá því í febrúar 2014 en var áður forstjóri ORF Líftækni, Magasin du Nord í Kaupmannahöfn og Haga hf.
Samkeppniseftirlitið samþykkti í lok júlí kaup N1 á öllu hlutafé Festi hf. Forstjóri sameinaðs félags N1 og Festar verður Eggert Þór Kristófersson sem nú er forstjóri N1.
Mbl.is greinir frá því að Jón hafi sent samstarfsfólki sínu tölvupóst fyrir helgi þar sem fram kom að þótt hann láti nú af störfum sem forstjóri Festi muni hann gegna embætti stjórnarformanns Krónunnar.
Fengu 344 milljónir
Kaupverð hlutafjár Festar, að teknu tilliti til leiðréttingarákvæða í kaupsamningi, nemur 23,7 milljörðum króna og var það annars vegar greitt með afhendingu ríflega 79,5 milljóna hluta í N1 á genginu 115, eða 9,2 milljarða króna, og hins vegar með ríflega 14,5 milljarða í formi reiðufjár.
Sex lykilstjórnendur Festar, þar á meðal Jón Björnsson forstjóri, fengu samanlagt um 344 milljónir króna greiddar þegar kaupréttarsamningar þeirra voru gerðir upp fyrr á árinu í tengslum við sölu á keðjunni til N1.