Sonja Ýr Þorbergsdóttir mun gefa kost á sér í embætti formanns BSRB í kosningu sem fram fer á þingi bandalagsins sem haldið verður dagana 17. til 19. október næstkomandi.
Sonja hefur starfað sem lögfræðingur bandalagsins síðastliðinn áratug.
Í yfirlýsingu frá Sonju kemur fram að hún telji að mikilvægasta verkefni bandalagsins sé að auka velferð allra, stuðla að auknu jafnrétti og tryggja að allir geti lifað á launum sínum.
„Eitt af stærstu baráttumálum okkar í BSRB er stytting vinnuvikunnar. Allt of víða einkennist starfsumhverfi í almannaþjónustu af lágmarksmönnun og miklu álagi með tilheyrandi afleiðingum fyrir heilsu fólks. Stytting vinnuvikunnar stuðlar meðal annars að betri líðan, minni streitu, aukinni starfsánægju og fækkun veikindadaga. Við í BSRB þurfum að halda áfram að berjast kröftuglega fyrir styttingu vinnuvikunnar og betra starfsumhverfi,“ segir Sonja meðal annars í yfirlýsingunni.
Hljóti hún kosningu segist Sonja munu vinna að aðgerðum í húsnæðismálum, efla stuðning við barnafjölskyldur, minnka skattbyrði og tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.