Jack Dorsey, forstjóri Twitter, og Sheryl Sandberg, einn framkvæmdastjóra Facebook, segja að alvarleg mistök hafi átt sér stað þegar kerfisbundnar tölvuárásir og falskar fréttaveitur voru notaðar á samfélagsmiðlunum í aðdraganda kosninganna 2016.
Sögðu þau bæði, samkvæmt umfjöllun BBC, að miðlarnir hefðu brugðist seint og illa við því þegar hinum ýmsu aðgerðum var beitt til að hafa áhrif á fréttastraum fólks. Starfsfólk hefði ekki verið með nægilega góða ferla til að bregðast við og þá hefði ekki heldur verið nægilega fylgst með því, að ekki væri verið að misnota það áhrifamikla dagskrárvald sem samfélagsmiðlarnir búa yfir.
Margir þingmenn þjörmuðu að Dorsey og Sandberg og sögðu þau vera talsmenn fyrirtækja sem hefðu ekki brugðist nægilega vel fyrir alvarlegum árásum á Bandaríkin, og að lengi vel hefðu þau einfaldlega ekki viðurkennt að vandamál væri til staðar.
The chair for Google stays empty as Sheryl Sandberg and Jack Dorsey testify before Congress https://t.co/h88uwqTvb6 pic.twitter.com/IDFblmhPZd
— Bloomberg (@business) September 5, 2018
Þá lét Mark Warner, öldungardeildarþingmaður Demókrata, þau orð falla að það væri lítillækkun við Bandaríkjaþing að Google hefði ekki sent fulltrú á fund þingnefndar til að ræða málið, en sæti sem merkt var fyrirtækinu var tómt.
„Í ljósi liðinna atburða, þá er augljóst að alvarleg mistök voru gerð, bæði af hálfu Facebook og Twitter,“ sagði Mark Warner í yfirheyrslunni.