Aðsókn í bæði leikskólakennaranám og grunnskólakennaranám hefur aukist, samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands. 86 prósent fleiri hefja nám í leikskólakennarafræðum nú í haust en haustið 2016 og í grunnskólakennarafræði hefur nýnemum fjölgað um 61 prósent á sama tíma.
Auk þess jókst aðsókn að framhaldsnámi á Menntavísindasviði umtalsvert á milli ára og segir í fréttabréfi skólans það vísbendingu um aukinn áhugi fyrir kennara- og uppeldisstörfum.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs segir í samtali við Kjarnann að hún telji að hér fari saman aukinn áhugi ungs fólks á því spennandi og skapandi starfi sem fari fram í leikskólum og sá faglegi metnaður sem finna megi í leikskólum landsins.
Breytingar á skipulagi námsins að skila sér
„Þá hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á skipulagi námsins sem eru að skila sér, til dæmis er boðið upp á þrepaskipt nám sem nýtist þeim sem vilja efla sig sem fagfólk en vilja eiga möguleika á styttri námsleið, sem veitir þó jafnframt möguleika til áframhaldandi náms,“ segir Kolbrún. Hún segir að þau á Menntavísindasviði greini jafnframt á síðustu árum aukinn áhuga á tveggja ára námsleið á meistarastigi sem ætluð er þeim sem lokið hafa bakkalárnámi í öðru fagi og veitir leyfisbréf leikskólakennara.
Hún bendir enn fremur á að starfsumhverfi leikskólakennara sé fjölbreytt, leikskólakennurum bjóðist mikið starfsöryggi og ýmsir möguleikar til starfsþróunar.
„Framundan eru spennandi tímar við áframhaldandi þróun námsins, við viljum auðvitað sjá nemendum fjölga enn frekar enda erum við enn langt frá þeirri mönnun í leikskólum landsins sem stefnt er að, þ.e. að tveir þriðju starfsfólks leikskóla séu menntaðir leikskólakennarar. Lykillinn felst í því, að mínu viti, að byggja upp enn sterkara samstarf sveitarfélaga, háskóla, fagfélaga og ríkisvalds um möguleika starfsfólks til að sækja sér menntun, um skipulag og innihald leikskólakennaranáms og ekki síst samvinnu um nýsköpunar- og þróunarstarf innan leikskóla,“ segir hún.
Menntuðum leikskólakennurum fækkar
Í frétt Hagstofunnar frá því fyrr í vikunni kemur fram að alls hafi 6.018 starfað í leikskólum í desember 2017 og hafði fjölgað um 111, eða tæp tvö prósent, frá fyrra ári. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði einnig um tæp tvö prósent og voru 5.289.
Í desember 2017 störfuðu 1.622 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 29,2 prósent, starfsmanna við uppeldi og menntun barna, og hefur fækkað um 338 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmenn sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi voru 1.105 talsins. Ófaglærðir starfsmenn voru rúmlega helmingur starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2017.
Leikskólakennarar að eldast
Aldursskipting leikskólakennara hefur verið að breytast á þann hátt að kennarar sem eru 50 ára og eldri verða sífellt stærri hluti kennarahópsins. Árið 2017 voru þeir rúm 42 prósent leikskólakennara en voru 26 prósent 10 árum áður.
Að sama skapi hefur leikskólakennurum undir fimmtugu fækkað, ekki aðeins þegar litið er á hlutfallstölur heldur líka þegar fjöldatölur eru skoðaðar. Tæplega 900 leikskólakennarar á aldrinum 30 til 49 ára störfuðu í leikskólum árið 2017 en þeir voru 1.142 þegar þeir voru flestir árið 2009.