Kóreski leikjaframleiðandinn Pearl Abyss hefur keypt íslenska tölvuleikjaframleiðandann CCP á 425 milljónir dali, eða 46 milljarða króna. CCP mun áfram starfa sem sjálfstæð heild og reka leikjastúdíó í Reykjavík, London og Sjanghæ. Pearl Abyss naut ráðgjafar Deutsche Bank og lögmannsstofanna Kim & Chang og LEX við kaupin. CCP til aðstoðar voru The Raine Group og lögmannsstofurnar White & Case LLP og LOGOS. Stjórnendur CCP verða áfram þeir sömu og fyrir og áform fyrirtækisins um að flytja í nýjar höfuðstöðvar í Vatnsmýrina eru óbreytt.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir að Pearl Abyss sé eitt mest spennandi og hraðvaxandi fyrirtækið í leikjaiðnaðnum í dag. „Það hefur margt nýtt fram að færa hvað varðar tækni, getu og framtíðarsýn. Ég held að fyrirtækin geti lært mikið hvort af öðru. Við erum spennt að taka saman höndum með þeim og ná nýjum hæðum með bæði fyrirtækin, leikina sem við þróum og - það sem mestu skiptir – spilarana okkar.“ Hilmar Veigar átti sjálfur 6,5 prósent hlut í CCP og getur því átt von á að fá um þrjá milljarða króna fyrir hlut sinn.
Risastórt fyrirtæki
Pearl Abyss leikjafyrirtækið var stofnað árið 2010 og gaf fyrst út fjölspilunarleikinn Black Desert Online í Kóreu árið 2014. Frá því að Pearl Abyss var skráð á hlutabréfamarkað árið 2017 hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að kaupa alþjóðlega leikjafyrirtæki á borð við CCP til að vaxa enn hraðar á heimsvísu. Verðmæti fyrirtækisins við síðustu viðskipti í kóresku kauphöllinni var jafnvirði um 300 milljarða íslenskra króna. Pearl Abyss sló tekjumet á fyrri helmingi þessa árs þegar farsímaútgáfa Black Desert Mobile kom út í Kóreu.
Aðalvara CCP er líka fjölspilunarleikur, EVE Online, sem er einn elsti og virtasti slíki leikur í heimi.
Í tilkynningu er haft eftir Robin Jung, forstjóra Pearl Abyss, að fyrirtækið sé gríðarlega ánægt með að fá CCP í hópinn. „ CCP er reynslumikill leikjaframleiðandi með yfir 15 ára reynslu og þekkingu á stafrænni dreifingu. Þau hafa staðið sig gríðarlega vel í því að styrkja og viðhalda spilarahóp EVE og við vonumst til að læra af þeim og nýta þá þekkingu í leikjum Pearl Abyss. Ég er fullviss um hin þekktu hugverk CCP ásamt reynslu þeirra af alþjóðlegri útgáfu muni efla bæði fyrirtækin í að halda áfram að þróa bestu fjölspilunarleikina.“
Novator verið leiðandi hluthafi í þrettán ár
Stærsti eigandi CCP er félagið NP ehf., sem er í eigu Novator Partners, með 27,2 prósent hlut. Auk þess á Novator ehf. 8,46 prósent hlut auk þess sem annað félag samstæðunar á hlut. Samtals eiga aðilar tengdir Novator 43,32 prósent. Eigendur þessara félaga eru m.a. Björgólfur Thor Björgólfsson, Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson og hafa þeir verið leiðandi fjárfestar í CCP frá árinu 2005. Aðrir stórir fjárfestar hafa verið sjóðirnir General Catalyst Partners og New Enterprise Associates.
Birgir Már hefur verið stjórnarformaður CCP undanfarin ár. Hann segir að á þeim tíma sem liðinn sé frá því að Novator kom að CCP hafi fyrirtækið vaxið úr því að hafa nokkra tugi starfsmanna í að reka starfsstöðvar víða um heim með hundruðum starfsmanna. „Hilmar Veigar Pétursson og allt hans skapandi og einarða teymi hefur byggt upp félag, sem Novator lætur nú stolt í hendur Pearl Abyss. Saman verða þessi félög firnasterk og í góðri stöðu til að halda áfram að vaxa.“
Salan í pípunum í nokkurn tíma
Sala á CCP hefur lengi verið í pípunum. Greint var frá því í lok árs 2016 að stærstu eigendur fyrirtækisins væru að íhuga sölu. Samkvæmt frétt Bloomberg á þeim tíma var talið að söluverðið gæti orðið allt að 900 milljónir evra, enda hafði CCP skilað methagnaði á árinu 2015, alls um 2,7 milljörðum króna, eftir að hafa tapað 8,7 milljörðum króna árið áður. Ljóst er, miðað við verðmiðann á viðskiptunum sem greint var frá í morgun, að verðmiðinn hefur lækkað umtalsvert á síðustu tveimur árum.
Afkoma CCP hefur verið jákvæð undanfarin tvö ár. Fyrirtækið hagnaðist um 21,5 milljónir dala, tæplega 2,4 milljarða króna, árið 2016 og 2,7 milljónir dala, um 300 milljónir króna, í fyrra.
Þrátt fyrir þetta var ráðist í hópuppsagnir hjá CCP í lok október í fyrra. Þá voru kynntar breytingar sem höfðu áhrif á um 100 af rúmlega 370 starfsmönnum á þeim tíma, þar af um 30 starfsmenn á Íslandi. Starfsstöð CCP í Atlanta var lokað í aðgerðunum, starfstöðin í Newcastle var seld og þróun sýndarveruleikaleikja var hætt, að minnsta kosti tímabundið.