„Í mínum huga er ljóst að íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu geta ekki lifað af til lengri tíma ef þau þurfa að greiða 20 til 30 prósent af sinni veltu til erlendra bókunarsíðna á borð við Booking.com eða Guide to Iceland, sem er íslensk bókunarsíða.“
Þetta segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins og fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið í dag, en hann fjallaði um áhrif bókunarsíða á ferðaþjónustuna í erindi á fundi viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, sem ber heitið Kompaní.
Á fundinum ræddi hann stöðu ferðaþjónustunnar, uppbyggingu Bláa lónsins frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1992 og horfurnar í íslensku hagkerfi, nú þegar hægt hefur á fjölgun ferðamanna sem hingað leggja leið sína. „Þessar upphæðir, sem bókunarsíðurnar eru að taka af starfseminni hér á landi eru svimandi háar og koma í tilfelli erlendu bókunarsíðnanna aldrei inn í hagkerfið. Það liggur í augum uppi að það er til lengri tíma litið ekki hægt að halda starfseminni gangandi ef 20 til 30 prósent af tekjunum renna beint til þriðja aðila með þessum hætti.“
Grímur sagði jafnframt að með kaupum Trip Advisor á Bókun hafi fyrirtækið í raun keypt aðgang að viðskiptagögnum um 700 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Það vekti upp áleitnar spurningar.