Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun taka plastbarkamálið til skoðunar að nýju og vinna út frá niðurstöðum Rannsóknarskýrslunnar. Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í samtali við Kjarnann.
„Við munum vinna með skýrslu rannsóknarnefndar sem forstjóri Landspítala og rektor Háskóla Íslands skipuðu og skoða niðurstöður hennar, spyrja nánar um helstu niðurstöður og kanna hvort það sem hefur verið gert af hálfu Landspítala og Háskóla Íslands sé í samræmi við niðurstöður skýrslunnar. Í þessu sambandi verður litið til sambærilegra stofnana erlendis með tilliti til þessa,“ segir Brynjar og bætir við að kannað verði hvaða svigrúm lögin gefa til að bregðast við niðurstöðum skýrslunnar.
Ekkjan hefur leitað til íslenskra lögfræðinga
Í samtali við Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmann forstjóra Landspítala, kemur fram að íslensk lögfræðistofa hafi nú tekið að sér mál Merhawit Baryamikael Tesfaslase, ekkju Andemariams Beyene, sem fyrstur manna gekkst undir ígræðslu plastbarka, en Anna Sigrún upplýstir að Landspítalinn hafi verið í sambandi við sænskan lögfræðing sem Merhawit hefur haft í Svíþjóð.
Sjálf segir Merhawit að hún hafi lítið heyrt frá þessum lögfræðingi og ekkert er varði Landspítalann eða Karolinska-háskólasjúkrahúsið þegar hún var innt eftir svari við þessu. Lögfræðingar Merhawit hér á landi eru Sigurður G. Guðjónsson og Gestur Gunnarsson en þeir segjast ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu.
Þá barst svar frá Halldóru Viðarsdóttur, aðstoðarmanni landlæknis, um eftirlitsskyldu Embættisins í plastbarkamálinu. Í því segir að Embætti landlæknis sé stjórnvald og starfi samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. „Landlæknir hefur haft til meðferðar eftirlitsmál samkvæmt framangreindum lögum vegna plastbarkamálsins og er það enn í vinnslu. Embættið stígur hins vegar ekki inn í fjölmiðlaumfjöllun um þau mál sem það hefur til meðferðar enda samræmist slíkt ekki hlutverki embættisins.“