Starfshópur sem vinnur að hvítbók um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi mun ekki skila niðurstöðu sinni fyrr en í nóvember. Í skipunarbréfi var gert ráð fyrir skilum fyrir 15. maí síðastliðinn með skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra.
Í svari formanns nefndarinnar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að skipun hennar hafi tafist töluvert miðað við það sem ætlunin var þegar dagsetningin 15. maí var ákveðin. „Nefndin hóf ekki störf fyrr en í febrúar og því ljóst að þau tímamörk voru ekki raunhæf,“ segir Lárus L. Blöndal formaður. Nefndin hefur óskað eftir umsögnum margra aðila og hafi þær síðustu borist í júlí. Forsætisráðherra kynnti í vor á þingi á stefnt væri að því að nefndin lyki störfum í haust en nú er gert ráð fyrir að það verði í nóvember.
Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins er formaður starfshópsins. Með honum í hópnum eru Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður lausafjáráhættu og fjármálafyrirtækja hjá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð og Sylvía K. Ólafsdóttir, deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar.
Kveðið var á um stofnun hópsins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð var áhersla á að stefnumarkandi ákvarðanir um fjármálakerfið verði teknar eftir umfjöllun Alþingis um framtíðarsýn fjármálakerfisins á Íslandi sem byggi á þessari hvítbók um efnið. Hvítbókin hafi að leiðarljósi aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleika. Í sáttmálanum segir einnig að ríkisstjórnin vilji vinna að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu, að dregið verði úr áhættu vegna óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og að sérstaklega verði litið til annarra lítilla opinna hagkerfa og reynslu annars staðar á Norðurlöndunum við mótun framtíðarsýnarinnar.
Í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu kom fram að markmið með starfshópnum væri að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun.