Á Íslandi voru 36 prósent doktorsnema erlendir árið 2016. Þetta er hæsta hlutfall á Norðurlöndum en næst kemur Svíþjóð með 35 prósent, Danmörk með 34 prósent, Noregur með 22 prósent og Finnland með 21 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD um menntatölfræði, Education at a Glance 2018.
Í samantekt úr skýrslunni sem unnin var á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að hafa megi í huga að fáir nemendur eru í doktorsnámi hér á landi í samanburði við Norðurlöndin, þ.e. samanburður geti verið villandi.
Annars eru erlendir nemendur við nám á Íslandi á heildina litið 7 prósent, sem er ekki mjög hátt hlutfall, samkvæmt samantektinni. Það er einu prósentustigi hærra en meðaltal OECD sem stóð í 6 prósentum árið 2016. Hæst var hlutfallið 11 prósent í Danmörku, 8 prósent í Finnlandi, 7 prósent í Svíþjóð og 4 prósent í Noregi.
Íslenskum háskólanemum fækkar erlendis
Í fyrrnefndri samantekt kemur enn fremur fram að Ísland taki fullan þátt í alþjóðavæðingu háskólakerfisins eins og önnur lönd. Víða á meginlandinu sé mikill samgangur milli háskóla, og í Bretland er hlutfallið 18 prósent enda sé landið eftirsóttur áfangastaður erlendra nemenda sem koma hvaðanæva úr heiminum. Þau tvö fagsvið sem taka á móti flestum erlendum nemendum hér á landi eru hugvísindi og listir með 24 prósent, og raunvísindi með 18 prósent.
Íslenskir háskólanemar sækja einnig í erlenda skóla og hlutfall íslenskra námsmanna erlendis var 13 prósent árið 2016. Þróunin virðist þó vera að íslenskir háskólanemar fara síður til náms erlendis og þeim hefur fækkað um 8 prósent.
Erlendum nemendum hefur á móti ekki fjölgað frá 2013 og tala þeirra hefur staðið nokkurn veginn í stað. Erlendir nemendur sem hlutfall af heildarfjölda íslenskra námsmanna að meðtöldum þeim sem voru við skóla erlendis var 6 prósent árið 2016.