Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað kaup Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) og fasteignafélaginu DGV hf. Samruninn er háður skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið og samrunaaðilar hafa gert sátt um. Þannig skuldbinda Hagar sig til aðgerða til þess að bregðast við þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.
Þetta kemur fram í ítarlegri fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins vegna málsins.
„Rannsókn málsins leiddi í ljós að samruninn, án skilyrða, væri til þess fallinn að raska samkeppni með umtalsverðum hætti. Nánar tiltekið var það mat eftirlitsins að samruninn myndi styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði, leiða til staðbundinnar röskunar á samkeppni á tilteknum landssvæðum, hafa skaðleg áhrif á heildsölu- og birgðastigi og hafa í för með sér aukin og skaðleg eignatengsl á milli keppinauta á bæði eldsneytis- og dagvörumarkaði,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Með sáttinni skuldbinda samrunaaðilar sig til aðgerða sem miða að því að efla og vernda virka samkeppni á eldsneytis- og dagvörumörkuðum og bregðast við framangreindri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.
Nánar tiltekið skuldbinda Hagar sig m.a. til eftirfarandi aðgerða:
„1. Sala dagvöruverslana: Hagar skuldbinda sig til að selja frá sér þrjár dagvöruverslanir, þ.e. verslanir Bónuss að Hallveigarstíg, Smiðjuvegi og í Faxafeni. Með sölunni er m.a. brugðist við þeirri niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að samruninn styrki markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði.
2. Sala eldsneytisstöðva: Hagar skuldbinda sig til að selja fimm eldsneytisstöðvar (tvær þjónustustöðvar og þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar), sem nú eru reknar undir merkjum Olís og ÓB. Með sölunni er m.a. brugðist við þeim skaðlegum áhrifum sem samruninn felur í sér vegna aukinna eignatengsla á milli keppinauta á eldsneytismarkaði, sbr. einnig 6. tl. hér að neðan.
3. Sala dagvörusölu Olís í Stykkishólmi og sama dagvöruverð hjá Olís um allt land: Til þess að bregðast við skaðlegum staðbundnum áhrifum samrunans á dagvörumarkaði á tilteknum landssvæðum skuldbinda samrunaaðilar sig annars vegar til þess að hafa sama verð á dagvöru á eldsneytisstöðvum sínum um land allt og hins vegar til þess að selja rekstur og eignir Olís verslunarinnar Aðalgötu 2 Stykkishólmi sem tengjast dagvörusölu.
4. Bann við framkvæmd samrunans: Við rannsókn málsins leitaði Samkeppniseftirlitið ýmissa upplýsinga og sjónarmiða vegna mats á tillögum Haga að skilyrðum. Leiddi sú rannsókn til þeirrar niðurstöðu að vafi væri um hvort tillögur Haga væru fullnægjandi. Nánar tiltekið er um ræða vafa um sölu framboðinna eigna til aðila sem uppfylla skilyrði sáttarinnar um hæfi kaupenda (13. gr.). Af þeim sökum er heimild til að framkvæma samrunann háð því skilyrði að hæfur kaupandi finnist að framboðnum eignum. Slíkt skilyrði er þekkt leið í samkeppnisrétti til þess að bregðast við vafa um söluvænleika framboðinna eigna (e. Up-front buyer).
Framangreint þýðir með öðrum orðum að Högum er óheimilt að taka yfir eignir Olís fyrr enn liggja fyrir samningar við öfluga kaupendur sem uppfylla skilyrði sem sett eru í sáttinni.
5. Aukið aðgengi endurseljenda að heildsölu eldsneytis og aukið aðgengi að þjónustu Olíudreifingar hf. (ODR): Hagar skuldbinda sig til þess að selja nýjum endurseljendum sem eftir því leita allar tegundir eldsneytis í heildsölu á viðskiptalegum grunni, með nánar tilgreindum skilmálum. Er Högum skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim sem kaupa eldsneyti í heildsölu. (Sjá nánar V. kafla sáttarinnar.)
Jafnframt skuldbinda Hagar sig til þess, sem annar aðaleigenda ODR, að grípa til tiltekinna aðgerða til þess að tryggja að öll þjónusta ODR tengd eldsneyti sé veitt þeim aðilum sem eftir henni óska án mismununar og á sanngjörnum og eðlilegum kjörum (Sjá nánar VI. kafla sáttarinnar.)
Með þessum aðgerðum er brugðist við samkeppnisröskun sem leiðir af samþættingu eldsneytis- og dagvörufyrirtækja, þ.e. milli Haga og Olís, og rudd braut fyrir virkari samkeppni á eldsneytismarkaði.
Skilyrðin varðandi ODR eru tengd þeim skilyrðum sem sett voru með sátt Samkeppniseftirlitsins við N1 hf. vegna samruna félagsins við Festi hf. Gangi báðir samrunarnir eftir skuldbinda fyrirtækin sem eigendur ODR sig til þess að opna aðgengi fyrir þriðju aðila að þjónustu ODR.
6. Samkeppnislegt sjálfstæði Haga: Hagar skuldbinda sig til þess að grípa til tiltekinna aðgerða til þess að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Haga, s.s. sjálfstæði stjórnar og lykilstarfsmanna, aðskilnað hagsmuna og tiltekið verklag sem miðar að þessu. (Sjá nánar VII. kafla sáttarinnar.)
Með þessum aðgerðum er m.a. brugðist við skaðlegum áhrifum eignatengsla á dagvöru- og eldsneytismarkaði, en sem kunnugt er eiga sömu aðilar verulega eignarhluti í fleiri en einum keppinaut á þessum mörkuðum.
Í sáttinni er boðað, til viðbótar þessum aðgerðum, að Samkeppniseftirlitið muni eiga frekari viðræður við stærstu hluthafa Haga sem jafnframt eiga umtalsverða eignarhluti í keppinautum og taka nánari afstöðu til þess hvort þörf sé íhlutunar gagnvart þeim, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, með hliðsjón af framkvæmd sáttarinnar.
Til viðbótar framangreindu hefur Samkeppniseftirlitið gert sátt við FISK-Seafood ehf. og móðurfélag þess Kaupfélag Skagfirðinga (KS) um að FISK-Seafood selji eignarhlut sinn í sameinuðu félaga niður undir ákveðið mark í kjölfar samrunans, gangi hann eftir. Ástæða þessara skuldbindinga er að bregðast við eignatengslum á milli KS og Haga í kjölfar samrunans en KS er bæði keppinautur Haga og mikilvægur birgi félagsins.
7. Eftirlit og umsjón óháðs aðila: Á grundvelli sáttarinnar verður óháður kunnáttumaður skipaður sem ætlað er að fylgja eftir og hafa eftirlit með þeim aðgerðum og fyrirmælum sem kveðið er á um í sáttinni. (Sjá nánar VIII. kafla sáttarinnar.),“ segir í tilkynningunni.