Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW Air, ásamt stjórn félagsins og ráðgjöfum, reyna nú að fá bankana, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann, til að koma að fjármögnun félagsins og tryggja þar með rekstur félagsins.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þá segir enn fremur að Skúli hafi fundað með Samkeppniseftirlitinu ásamt lögmanni sínum í gær.
Á undanförnum vikum hefur WOW Air reynt að tryggja fjármögnun upp á 50 til 100 milljónir evra, eða sem nemur allt að ríflega 13 milljörðum króna.
Norska verðbréfafyrirtækið
Pareto hefur yfirumsjón
með ferlinu, og hefur WOW Air kynnt áform og rekstur sinn fyrir erlendum fjárfestum. Ferlið hófst í lok mánaðarins, eins og fram hefur komið í fréttum og fréttaskýringum á vef Kjarnans.
Greinendur Pareto spá því að tap WOW Air í ár verði 3,3 milljarðar króna, en rekstrarumhverfi flugfélaga hefur versnað töluvert að undanförnu, ekki síst vegna harðnandi samkeppni og vaxandi olíukostnaðar.