WOW air er á lokametrunum með að sækja sér nægjanlegt fjármagn svo að lágmarksstærð yfirstandandi skuldabréfaútboðs flugfélagsins, 50 milljónir evra, jafnvirði um 6,5 milljarða króna, verði náð. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun.
Samkvæmt heimildum blaðsins voru stjórnendur og ráðgjafar félagsins í gærkvöldi þannig búnir að fá erlenda fjárfesta til að skrá sig fyrir að lágmarki um 45 milljónum evra í útboðinu. Gert er ráð fyrir að skuldabréfaútboðinu ljúki í dag en vonir standa til að endanleg stærð þess verði eitthvað meiri en sem nemur 50 milljónum evra.
Þá er jafnframt stefnt að því að Skúli Mogensen, forstjóri og eini hluthafi WOW air, fái inn fjárfesti að flugfélaginu sem myndi leggja því til nýtt hlutafé upp á tugi milljóna evra samhliða því að skuldabréfaútboðið verður klárað. Ekki liggur fyrir hversu stóran hlut hann myndi eignast í félaginu verði þau áform að veruleika, samkvæmt Fréttablaðinu. Eiginfjárhlutfall WOW air var aðeins um 4,5 prósent um mitt þetta ár og eigið fé þess um 20 milljónir Bandaríkjadala.
„Á meðal þeirra sem hafa unnið að því á síðustu dögum að fá erlenda fjárfesta til að taka þátt í útboði WOW air eru Fossar markaðir, sem hafa undanfarin ár verið leiðandi í að hafa milligöngu um kaup erlendra sjóða í skráðum verðbréfum á Íslandi, en fyrir tilstuðlan félagsins hefur bandarískur fjárfestingarsjóður skráð sig fyrir um 10 milljónum evra í útboðinu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Norska verðbréfafyrirtækið Pareto, sem hefur yfirumsjón með skuldabréfaútboðinu, hefur hins vegar tryggt fjármagn frá erlendum fjárfestum fyrir um 35 milljónir evra,“ segir í fréttinni.
Samkvæmt Fréttablaðinu unnu ráðgjafar flugfélagsins, meðal annars frá verðbréfafyrirtækinu Arctica Finance sem hefur hjálpað WOW air við að kynna útboðið hér á landi fyrir fjárfestum, að því í gær að fá íslenska fjárfesta til að leggja félaginu til fjármagn. Þannig hafi verið leitað liðsinnis ýmissa umsvifamikilla einkafjárfesta og þá hafi verið rætt við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna en ekki hafi legið fyrir í gærkvöldi hvort þeir myndu hafa einhverja aðkomu að útboðinu.