„Vegna fyrirspurna vil ég staðfesta að ég hlaut formlega áminningu vegna óviðeigandi kynferðislegrar áreitni á árshátíð fyrirtækisins fyrir 3 árum síðan. Ég hef iðrast þessa æ síðan. Ég fór strax í kjölfarið í áfengismeðferð og leitaði mér einnig viðeigandi aðstoðar.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitu Reykjavíkur. OR hefur gert áminninguna opinbera, en hana fékk starfsmaðurinn frá forstjóranum, Bjarna Bjarnasyni.
Eins og greint var frá fyrr í dag, þá hefur Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, ákveðið að stíga til hliðar tímabundið, á meðan það ferð fram heildræn skoðun á atvikum sem fjallað hefur verið um opinberlega að undanförnu og einnig skoðun á vinnustaðamenningu OR.
Fram kom í fréttum fyrir helgi að Bjarni Már Júlíusson hefði verið rekinn sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar vegna óviðeigandi hegðunar gagnvart samstarfsfólki sínu.
Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem sagt var upp störfum hjá Orku náttúrunnar fyrir viku.
Í færslu á Facebook síðu sinni gagnrýnir hún forstjóra Orkuveitunnar harðlega og segist ætlar að leita réttar síns af fullum þunga. Í stöðuuppfærslu sinni fer hún ítarlega yfir brottrekstur sinn hjá ON, sem hún segir tilhæfulausan, og segist hún reið og slegin vegna afgreiðslunnar á málinu öllu.
Stjórnarformaður OR, Brynhildur Davíðsdóttir, sagði í tilkynningu í dag að fjallað yrði ítarlega um þessi mál sem að framan greinir. „Ósk forstjóra OR um að stíga tímabundið til hliðar, sem mér barst nú undir kvöld, verður tekin fyrir á fundi stjórnar fyrirtækisins sem haldinn verður eins fljótt og auðið er. Þegar hefur verið óskað eftir því við Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gerð verði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum. Undirbúningur hennar er þegar hafinn,“ sagði í tilkynningu Brynhildar.