Heildarkostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í júlí var tæpar 87 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Alþingis. Alls voru greiddar rúmar 22 milljónir fyrir lýsingu á fundinum og rúm 31 milljón fyrir efni og vinnu við uppsetningu palla og gangvega. Þá voru greiddar rúmar 9 milljónir fyrir hönnun og ráðgjöf í tengslum við hátíðarfundinn og rúmlega 2,5 milljónir í gæslu.
Kostnaður var nokkuð umfram áætlun, einkum vegna þess að tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af „bestu gæðum“ þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu. „Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar,“ segir í tilkynningunni. Þá segir einnig að vinna við að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum fyrir viðburðinn mun áfram nýtast gestum þjóðgarðsins.
Alls fór kostnaður þannig 41 milljón fram úr áætlun, þar sem upphafleg rekstraráætlun gerði ráð fyrir kostnaði upp á 45 milljónir.
Kostnaðarliðirnir við hátíðarfundinn skiptast þannig:
Fundurinn var haldinn þann 18. júlí síðastliðinn af því tilefni að þá voru 100 ár liðin frá undirritun samninga um sambandslögin svokölluðu, milli Íslands og Danmerkur. Lögin tóku gildi 1. desember 1918 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um haustið og varð Ísland þá fullvalda ríki.
Framkvæmdin var afar umdeild, fyrst og síðast vegna þess að Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins sem og stofnandi og fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins, til margra ára, flutti sérstakt ávarp og kveðju dönsku þjóðarinnar.