Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að útgerðarfyrirtæki í sveitarfélaginu hafi greitt yfir einn milljarð króna í veiðigjöld á síðasta fiskveiðiári sem lauk 1. september. Það hafi verið helmingshækkun frá árinu á undan. Í samtali við Morgunblaðið segir Íris að peningarnir væru „betur komnir hér í Eyjum, þar sem þeir urðu til, en í ríkishítinni. Þennan landsbyggðarskatt verður að lækka.“
Veiðigjöld hafa fram til þessa verið byggð á afkomu sjávarútvegsins tvö til þrjú ár aftur í tímann. Mikill þrýstingur hefur verið frá útgerðarfyrirtækjum að lækka gjöldin og breyta fyrirkomulaginu þannig að það endurspegli betur rekstrarniðurstöðu hverju sinni.
Samkvæmt fjárlögum ársins 2018 áttu veiðigjöld að vera tíu milljarðar króna í ár en endurmetinni áætlun segir að þau verði sjö milljarðar. Gert er ráð fyrir sömu upphæð á næsta ári, en nýtt frumvarp, sem á að færa viðmiðunarár gjaldtökunnar nær í tíma, verður lagt fram í haust. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun leggja frumvarpið fram og hefur lýst því yfir að það muni líta dagsins ljós í kringum næstu mánaðamót. Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram frumvarp um breytingar á veiðigjöldum seint á síðasta þingi, sem hefði leitt að sér að þau hefðu lækkað um 1,7 milljarða króna, meðal annars vegna afsláttar til smærri fyrirtækja. Það frumvarp fékk ekki brautargengi og var dregið til baka. Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, en þá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda.
Þá greindi Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, nýverið frá afkomu sinni á síðasta ári, þegar samstæðan hagnaðist um 14,4 milljarða króna. Alls nemur hagnaður Samherja á síðustu sjö árum 100 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar er 94 milljarðar króna.
Stór viðskipti hafa auk þess átt sér stað með eignarhluti í fyrirtækjum í sjávarútvegi undanfarið. Brim keypti til að mynda 35 prósent hlut í HB Granda fyrir tæpa 23 milljarða króna. Eftir að Guðmundur Kristjánsson, eigandi Brim, settist í forstjórastól HB Granda í kjölfarið keypti HB Grandi útgerðarfélagið Ögurvík af Brim á 12,3 milljarða króna. Brim hefur síðar breytt nafni sínu í Útgerðarfélag Reykjavíkur.
Stærsta útgerðarfyrirtæki Vestmannaeyja er Ísfélagið. Eigendur þess eru einnig stærstu eigendur Morgunblaðsins.