FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki, útgerðararmur Kaupfélags Skagfirðinga, hefur gengið frá samningi um kaup á öllum eignarhlut Brims hf., sem nú heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, í Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum. Kaupverðið er 9,4 milljarðar króna að því er segir í tilkynningu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FISK-Seafood ehf.
Útgerðarfélag Reykjavíkur er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra HB Granda, en Útgerðarfélag Reykjavíkur á ríflega 37 prósent hlut í HB Granda. Á dögunum var tilkynnt um kaup HB Granda á Ögurvík, sem var í eigu Brims, nú Útgerðarfélags Reykjavíkur, fyrir 12,3 milljarða króna. Stjórnin hefur þegar samþykkt kaupin, en Samkeppniseftirlitið er með þau til skoðunar.
„Stjórn og stjórnendur FISK-Seafood ehf. vænta góðs samstarfs við eigendur og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hf. og sjá mikil tækifæri í rekstri félagsins og samvinnu þessara tveggja sjávarútvegsfyrirtækja,“ að því er segir í tilkynningu.
Ítarlega var fjallað um viðskiptaveldi Guðmundar Kristjánssonar í Kjarnanum á dögunum. Þessar tvær sölur sem nú hefur verið tilkynnt um, annars vegar á Ögurvík og hins vegar á hlutnum í Vinnslustöðinni, nema samtals 21,7 milljörðum króna.
Stærsti lánveitandi viðskiptaveldis Guðmundar hefur verið Landsbankinn.
Samkvæmt þessum viðskiptum FISK er verðmiðinn á Vinnslustöðinni 28,4 milljarðar króna.