Áformað er að koma á fót svonefndum Þjóðarsjóði. Sjóðnum er ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annað hvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum. Opið er fyrir innsendingu umsagna á tímabilinu 17. til 25. september á samráðsgátt stjórnvalda.
Í áformum um lagasetninguna kemur fram að hér eigi við skakkaföll sem eru fátíð en sagan sýni að geti riðið yfir á nokkurra áratuga fresti, til að mynda stórfelldar náttúruhamfarir sem geta meðal annars stórlaskað byggð, samgönguinnviði eða vatnsaflsvirkjanir og stóriðjuver, vistkerfisbreytingar, sjúkdómar eða önnur áföll, og valda stórfelldu efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti svo sem með Náttúruhamfaratryggingum Íslands.
Náttúruhamfarir, sjúkdómsfaraldrar eða netárásir
Sem dæmi um slíka stóratburði sem orðið hafa eru nefndar í áformunum náttúruhamfarir á borð við Skaftárelda og Móðuharðindin eða Heimaeyjargosið, vistkerfisbrest eins og hrun síldarstofnsins eða sjúkdómsfarald á borð við spænsku veikina. Einnig gæti verið um að ræða atburði eða kringumstæður af allt öðrum toga, svo sem afleiðingar af stórfelldum netárásum á mikilvæga innviði landsins eða hryðjuverk. Um gæti verið að ræða áföll sem ríkissjóður hefði að óbreyttu ekki nægilegan fjárhagslegan styrk til að mæta án þess að það leiði til verulegra samtímaáhrifa á velferð þegnanna vegna skertrar starfsemi hins opinbera eða hefði í för með sér skuldabyrði sem yrði þungbær um langa hríð og jafnvel ósjálfbær.
Þannig verði í lagasetningunni gengið út frá langtímasjónarmiðum um uppbyggingu á mjög burðugum sjóði sem geti tekist á við afleiðingar af stórum, ófyrirséðum og fátíðum áföllum á opinber fjármál, fremur en að sjóðurinn sjálfur fjármagni beinlínis bætur vegna, til dæmis tjóns tiltekinna atvinnugreina eða hópa.
Viðbragðsráðstafanir á höndum stofnana ríkisins
Allar viðbragsráðstafanir verði þannig á höndum stofnana ríkisins með því stjórnskipulagi sem er til staðar í samfélaginu og ætlað er að kljást við slíka atburði, þ.e. á vegum stofnanakerfis stjórnsýslunar og með tilstuðlan Alþingis, þar með talið með umfjöllun um fjárheimildir. „Ófyrirsjáanleiki og óviss stærðargráða slíkra stóráfalla felur í sér að nær ógerlegt er fyrir stjórnvöld að undirbúa sig fyrir afleiðingarnar í vanalegri fjárlagagerð og fjárhagsáætlunum til meðallangs tíma á annan hátt en að sýna þá fyrirhyggju að standa fyrir viðeigandi sjóðssöfnun.“
Tilefnið fyrir lagsetningu um stofnsetningu slíks varúðarsjóðs er einnig það að fyrirséð er að ríkissjóður muni á komandi árum geta haft umtalsverðar nýjar tekjur af arðgreiðslum eða auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum á forræði ríkisins, einkum Landsvirkjun, samkvæmt áformunum.
Þessar forsendur hafi skapast þar sem eiginfjárstaða Landsvirkjunar hefur styrkst mikið á undanförnum árum, skuldastaða hefur lækkað niður í hóflegt horf, miklar afskriftir af mannvirkjum eru að baki og ekki horfur á mjög mikilli fjárfestingarþörf á komandi árum. Framundan sé tímabil þar sem ekki virðist jafn mikil þörf á að styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins enn frekar og hafi forsvarsmenn þess og aðrir á opinberum vettvangi fram sett hugmyndir og tillögur um að fyrirtækið skili í auknum mæli arði til ríkisins sem eiganda þess og orkuauðlindanna.
Þessar viðbótartekjur gætu fallið til um langt árabil að því tilskyldu að raforkuverð haldist óbreytt eða hækki og að ekki verði þörf fyrir verulegar fjárfestingar í orkuvinnslu umfram það sem nú er fyrirséð og að aðrar slíkar forsendur sem eru ráðandi um fjárhag orkufyrirtækja bresti ekki. Hyggilegt þyki að þessar nýju tekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekjustofn til þess að standa undir reglubundnum ríkisútgjöldum, heldur verði þeim varið til þess að byggja upp fjárhagslegan viðbúnað í Þjóðarsjóði til að bregðast við ófyrirséðum áföllum.
Framlög úr ríkissjóði svari til tekna af arðgreiðslum
Fyrirhugað er að Þjóðarsjóður fái framlög úr ríkissjóði sem svari til tekna af arðgreiðslunum frá orkuvinnslufyrirtækjunum og að hann fjárfesti þá fjármuni einvörðungu í erlendum verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins setur með samþykki ráðherra.
Framlögin verði veitt með hliðsjón af tekjum af viðkomandi arðgreiðslum en ekki verði þó um að ræða svokallaða mörkun ríkistekna. Gert verði ráð fyrir fjárreiðum sjóðsins í fimm ára fjármálaáætlunum fyrir hið opinbera og fjárlögum. Komi til ófyrirséðs áfalls af framangreindum toga og að uppfylltum tilteknum skilyrðum og mati á fjárhagsáhrifum áfallsins geti ráðherra gert tillögu um að Alþingi samþykki þingsályktun um að stjórn sjóðsins úthluti til ríkissjóðs framlagi sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins vegna eins atburðar.
Heimildir vegna slíkra framlaga og fjárreiðna sjóðsins að öðru leyti verði jafnframt settar með fjárlögum með atbeina Alþingis. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir að framlag úr Þjóðarsjóði greiðist eftir á þegar mat á umfangi tjóns fyrir ríkissjóð liggur fyrir frá sérstakri matsnefnd og að ríkissjóður geti því þurft að fjármagna kostnaðinn tímabundið.
Þjóðarsjóður eign íslenska ríkisins
Þjóðarsjóðurinn verður eign íslenska ríkisins og verður færður á efnahagsreikning ríkissjóðs, enda væri hann í rauninni tiltekið fyrirkomulag á stýringu og ávöxtun á afmörkuðum hluta af peningalegum eignum ríkissjóðs. Fjárhagsleg staða ríkisins batnar því sem stærð sjóðsins nemur.
Með stofnun sjóðsins mun sjálfbærni og stöðugleiki opinberra fjármála styrkjast, traust aukast á íslenskt hagkerfi og þjóðarbúskap og þar með eflist lánshæfi ríkissjóðs og fleiri innlendra aðila sem tengjast því.
Sérstök stjórn sett yfir sjóðinn
Fyrirhugað er að sett verði sérstök stjórn yfir sjóðinn sem fari með yfirstjórn hans. Stjórnin beri ábyrgð á rekstri sjóðsins, setji sér starfsreglur og geri tillögu um fjárfestingarstefnu hans til staðfestingar af ráðherra á grundvelli viðmiða sem verði lögbundin í megin atriðum.
Gert er ráð fyrir að í fjárfestingastefnu sjóðsins verði útilokaðir fjármálagerningum sem gefnir eru út af fyrirtækjum eða stofnunum sem stunda eða eru viðriðin starfsemi sem telja má að stangist á við góða siði, svo sem nýtingu vinnuafls barna og framleiðslu og sölu vopna sem nýtt eru í hernaði.
Með þessu fyrirkomulagi verði gætt að armslengdarsjónarmiðum, svo sem að ráðherra hafi ekki yfirstjórnunarvald með ákvörðunum stjórnar og hlutist ekki til um einstakar fjárfestingar, en einnig að því að ráðherra geti rækt ábyrgð sína á því að stjórnin starfi samkvæmt lögum og í samræmi við ábyrga stjórnarhætti og fylgi viðhlítandi fjárfestingarsetefnu.
Gert er ráð fyrir að daglegur rekstur sjóðsins verði hóflegur að umfangi og að kostnaður vegna sjóðsins greiðist af tekjum hans eða eigin fé. Í stórum dráttum verður annars vegar um að ræða þóknanir til stjórnar og annan kostnað við rekstur hennar og hins vegar umsýslugreiðslur til eignastýringaraðila sem gert er ráð fyrir að verði samið við varðandi verðbréfakaup og sjóðsstýringu.
Stefnt að því að sjóðurinn verði 10% af vergri landsframleiðslu
Í áformunum segir að eðli málsins samkvæmt sé með engu móti hægt að geta sér til af nokkurri nákvæmni um hversu stórt fjárhagslegt tjón gæti orðið um að ræða af völdum áfalla sem hér eru höfð í huga. Vegna góðra trygginga sem þegar eru fyrir hendi virðist ekki ástæða til þess að leggja í þessum tilgangi til hliðar fjárhæð sem hleypur á jafnvirði tuga hundraðshluta af vergri landsframleiðslu.
Þó sé hægt að setja fram lauslegar stærðargráður þar sem ganga megi út frá því að þörf væri fyrir slíkan sjóð þegar áfall er farið að nema a.m.k. nokkrum tugum milljarða króna, til dæmis 50 milljarða króna, umfram það sem kynni að vera borið af öðrum tryggingum. Miðað við þetta og að einungis væri gengið á helming eigna sjóðsins hverju sinni er talið skynsamlegt að stefnt verði að því að framtíðarstærð sjóðsins verði nálægt 250 til 300 milljarða króna eða nærri tíu hundraðshluta af vergri landsframleiðslu.
Tekur 15 til 20 ár að byggja upp sjóðinn
Samkvæmt áformunum má ætla að það gæti tekið um fimmtán til tuttugu ár að byggja upp slíkan sjóð miðað við varfærnar forsendur um þá fjármuni sem gera má ráð fyrir að til hans falli á komandi árum og um ávöxtun þeirra.
„Í þessu sambandi má líta til fordæmis Norðmanna þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa staðið saman um að láta olíusjóð þeirra byggjast upp án þess að ganga í hann til að mæta þörfum hins opinbera fyrr en nú þegar stærð hans er orðin um eða yfir 1 billjón bandaríkjadala. Það verður á valdi stjórnvalda í framtíðinni að meta hvenær sjóðurinn verður orðinn svo stór að tekjum sem honum eru ætlaðar verði betur ráðstafað í annað.“