Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sé gamall kall sem sleiki botninn á mykjuhaugi.
Vísar Benedikt þar í Staksteina blaðsins í dag þar sem endurbirtur er pistill Halldórs Jónssonar, verkfræðings og áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum, sem hann birti á Moggabloggi sínu og kallar „Dömufrí“.
Þar vísar Halldór í áskanir á hendur Brett Kavanough dómaefnis Trump vestanhafs um kynferðisofbeldi, og ber þær saman við hvernig hann sjálfur reyndi að vingast við stúlkur á dansæfingum í Menntaskólanum í Reykjavík á sínum tíma.
„Þegar ég hugsa til baka hvernig maður hegðaði sér á dansæfingum í MR. Búinn að tendra sig upp á brennivíni og Camelsmóki bauð maður stelpunum upp og reyndi allt til að vanga þær og trukka og helst að komast í sleik,“ segir Halldór í pistli sínum og bætir við. „Þessi hegðun myndi koma í veg fyrir að ég yrði samþykktur í embætti ef Trump myndi vilja hygla mér eins og Kawanough eða hvernig það er stafað. Sá kall hegðaði sér eitthvað svona á menntaskólaböllum fyrir einum þrjátíu árum. Nú ætla demókratarnir að nota það til að hindra að þessi dóni komist í Hæstarétt Bandaríkjanna.“
Kjarninn fjallaði um ásakanirnar á hendur Kavanaugh hér.
„Ef bara hefðu verið dömufrí í MR í gamla daga hefði mér líklega sjaldnar verið boðið upp en þeim myndarlegri. Fyrir bragðið hefði ég líklega minna á samviskunni varðandi mögulegt embættisgengi og færri stelpur hefði talið sig geta hankað mig á einhverju, þó svo að ég hafi ekki orðið var við mikla mótspyrnu þeirra á þeim tíma .En kannski hef ég bara fattað þetta vitlaust eins og þeir í Orkuveitunni. „Ef bara konur mættu hafa kynferðislegt frumkvæði í formi almenns dömufrís en ekki þessir ólaungröðu kallar sem vaða allstaðar uppi, bæði prelátar, paragraffistar og pólitíkusar, þá yrðu kannski færri vandræði en nú ríða allstaðar húsum,“ skrifar Halldór í færslu sinni sem Morgunblaðið birtir undir titlinum „Samfélag heilagra“.
Benedikt segir að sér verði óglatt af því að lesa þetta. „ Tveir ógeðslegir gamlir karlar sleikja botninn á mykjuhaugnum, annar með því að halda að það sé sniðugt að skrifa svona, hinn með því að halda að það sé sniðugt að birta svona skrif.“
Enn einn dagur þar sem ég sé eftir að vera búinn að segja upp Mogganum. Þá get ég ekki gert það í dag. Mér varð...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Wednesday, September 19, 2018