Samkeppniseftirlitið gerir fjórar alvarlegar athugasemdir við viðskiptahætti Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brims og HB Granda, og segir að ef frummat stofnunarinnar sé á rökum reist sé um að ræða „alvarleg brot“ á samkeppnislögum.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Tilkynnt var um það í gær að Brim hf., nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, hefði selt þriðjungshlut sinn í Vinnslustöðinni fyrir 9,4 milljarða króna til FISK Seafood, útgerðarhluta Kaupfélags Skagfirðinga.
Fyrr í mánuðinum var síðan greint frá því að HB Grandi hygðist kaupa Ögurvík af Brimi, fyrir 12,3 milljarða króna. Á skömmum tíma hefur Brim tilkynnt um sölu á eignum upp á 21,7 milljarð króna.
Fram kemur í bréfi frá Samkeppniseftirlitinu, sem vitnað er til í Markaðnum í dag, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, að sú staða að aðaleigandi Brims sé forstjóri HB Granda kunni að leiða til brota á samkeppnislögum. Guðmundur tók við sem forstjóri HB Granda í júní eftir kaup á kjölfestu hlut í fyrirtækinu í vor, en eignarhluturinn nemur um 37 prósentum af heildarhlutafé.
Samkeppniseftirlitið segir að það sé varhugavert í samkeppnislegu tilliti að sami aðili, sem eigi allt hlutafé í einu félagi, sé á sama tíma forstjóri félags á sama markaði og stjórnarmaður í því þriðja, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.