Fjallað er ítarlega um svonefndar grænar skuldabréfaútgáfur í nýjustu útgáfu Vísbendingar, sem kemur til áskrifenda í dag. Farið yfir þróun mála á alþjóðamörkuðum og hvernig áhuginn á þessari tegund skuldabréfaútgáfu hefur verið að stigmagnast frá ári til árs að undanförnu.
Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnarmálafræðingur, segir í umfjöllun sinni að nýleg útgáfa Landsvirkjunar undir þessum græna hatti sé mikilvæg fyrir Ísland. „Á Íslandi hefur Landsvirkjun gengið fremst á þessu sviði og er eini íslenski aðilinn sem hefur gefið út grænt skuldabréf. Það gerði fyrirtækið fyrr á árinu þegar það sótti sér 200 milljónir dollara á bandarískan skuldabréfamarkað. Frumraunin heppnaðist vel og skráðu fjárfestar sig fyrir sjöföldu því andvirði sem upphaflega var boðið út, sem varð til þess að Landsvirkjun sótti sér tvöfalda þá upphæð sem upphaflega var stefnt að. Útboðið byggði á ramma sem Landsvirkjun hafði útbúið vegna útgáfu grænna skuldabréfa en sá rammi byggði síðan á viðmiðum International Capital Market Association (ICMA) og fjórum stoðum um ráðstöfun fjármuna; ferli um mat og val á verkefnum; um stýringu fjármuna og um upplýsingagjöf. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Sustainalytics gerði úttekt á ramma Landsvirkjunar.
Landsvirkjun var einnig frumherji á bandaríska skuldabréfamarkaðnum sem hafði ekki áður fengið sambærilega útgáfu. Þá gerði úttektaraðilinn undanþágur frá stærðarmörkum þeirra verkefna sem til stóð að fjármagna vegna þess hversu grænar íslenskar vatnsaflsvirkjanir eru taldar. Ætla má að Landsvirkjun hafi brotið blað þar sem aðrir útgefendur skuldabréfa á Íslandi ættu að geta litið til fordæmis fyrirtækisins og lært af skuldabréfaútgáfunni hvernig unnt sé að fjármagna stór verkefni,“ segir Kristján Guy meðal annars í grein sinni.