Stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélags Íslands hefur fordæmt ákvörðun Icelandair að setja flugfreyjum og flugþjónum þá afarkosti að velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna og skora á Icelandair að endurskoða hana. Félagið undirbýr nú stefnu til Félagsdóms vegna málsins.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við Kjarnann þetta vera brot á reglum og kjarasamningum og aðför að áratugavinnu félagsins.
Hún segir að starfið kalli á mikla fjarveru frá fjölskyldu og bendir á að það sé engan veginn hefðbundið. „Það er ótækt árið 2018 að fara í slíkar aðferðir, sérstaklega þegar verið er að vinna að því að stytta vinnuvikuna,“ segir hún.
Berglind segir jafnframt að stjórnin geri alvarlegar athugasemdir við að aðgerðir beinist sérstaklega að flugfreyjum og flugþjónum. „Við teljum að þetta hafi í för með sér ójafnræði og að þetta brjóti gegn lögum. Þetta er ákvörðun sem var tekin einhliða og ekki af meðalhófi.“
Berglind telur að þrátt fyrir að fyrirtækið geti sparað einhverjar krónur með þessum aðgerðum þá séu þær ekki sparnaðaraðgerðir til lengri tíma litið.
Í tölvupósti sem flugþjónar og flugfreyjur fengu í gærkvöldi, og sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að Icelandair muni eftir sem áður taka mið af sérstökum persónulegum aðstæðum sem geta tímabundið valdið því að starfsmaður á erfitt með að sinna 100 prósent starfi. Boðið verði upp á viðtöl fyrir þá einstaklinga sem óska eftir því að ræða slíkar aðstæður. Unnið verði samkvæmt nýju verklagi sem verður opið og aðgengilegt.
Berglind telur þetta ekki vera nægilegt því fólk hafi tekið að sér hlutastörf á grundvelli kjarasamninga og hafi sumir skipulagt líf sitt í kringum þessi störf. Hún segir að fyrirtækið hafi í gegnum tíðina jafnvel beðið starfsmenn að taka að sér hlutastörf en margar ástæður geti legið að baki þess að fólk velja þá leið. Afleiðingarnar af þessum aðgerðum verði þær að mikil þekking og reynsla tapist frá félaginu.