Helmingur landsmanna segist helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 3. til 10. ágúst síðastliðna og var heildarfjöldi svarenda 957 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Þá kváðust 18 prósent helst sækja fréttir í sjónvarp og 9 prósent í útvarp. Athygli vekur að einungis 4 prósent kváðust helst sækja fréttir í dagblöð en 9 prósent sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum.
Konur reyndust líklegri en karlar til að sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum en hærra hlutfall karla en kvenna kvaðst helst sækja fréttir sínar af vefsíðum, þ.e. fréttamiðlum eða öðrum.
Kynslóðamunur var á svörum eftir aldri, samkvæmt MMR. Af ungu fólki á aldrinum 18 til 29 ára kváðust 62 prósent helst sækja fréttir sínar af vefsíðum fréttamiðla. Hlutfalli þeirra sem sækja helst fréttir á vefsíður fréttamiðla fór lækkandi í takt við hækkandi aldur en einungis 15 prósent þeirra 68 ára og eldri kváðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla.
Sjónvarpsmiðlar, útvarp og dagblöð eiga á brattann að sækja
Svarendur elsta aldurshópsins kváðust aftur á móti helst sækja sér fréttir í sjónvarp (43 prósent), útvarp (26 prósent) eða dagblöð (12 prósent). Fram kemur í könnuninni að ljóst sé að sjónvarpsmiðlar, útvarp og dagblöð eigi á brattann að sækja hjá ungu fólki en einungis 2 prósent þeirra á aldrinum 18 til 29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í sjónvarp, 1 prósent í útvarp og 1 prósent í dagblöð en 6 prósent kváðust ekki fylgjast með fréttum.
Unga fólkið reyndist aftur á móti líklegra en aðrir aldurshópar til að sækja sér fréttir af samfélagsmiðlum en 17 prósent þeirra 18 til 29 ára kváðust helst sækja sér fréttir í gegnum samfélagsmiðla og 8 prósent þeirra 30 til 49 ára.
Háskólamenntaðir sækja helst fréttir af vefsíðum
Af þeim sem lokið höfðu háskólamenntun kváðust 60 prósent helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla, samanborið við 46 prósent þeirra sem höfðu hæst lokið framhaldsskóla og 44 prósent þeirra með grunnskólamenntun. Þá kváðust 12 prósent sem lokið höfðu grunnskólamenntun sækja helst fréttir af samfélagsmiðlum, samanborið við 8 prósent þeirra með framhaldsskóla- eða háskólamenntun.
Þegar litið var til stjórnmálaskoðana mátti sjá að 66 prósent stuðningsfólk Pírata og 59 prósent stuðningsfólks Viðreisnar sögðust helst sækja fréttir af vefsíðum fréttamiðla. Aðeins 35 prósent af stuðningsfólki Flokks fólksins kvaðst helst sækja sér fréttir af vefsíðum fréttamiðla en 20 prósent þeirra kváðust hins vegar helst sækja fréttir í útvarp og 11 prósent í dagblöð.
Af stuðningsfólki Vinstri grænna kváðust 28 prósent helst sækja fréttir í sjónvarp, samanborið við aðeins 9 prósent stuðningsfólks Pírata. Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins líklegast til að sækja helst fréttir á samfélagsmiðla en stuðningsfólk Pírata og Samfylkingarinnar var líklegast til að segjast ekki fylgjast með fréttum.