Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun gerðu nýlega með sér samning um verkefni sem ætlað er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum plastnotkunar en ráðuneytið greiðir Umhverfisstofnun 3,5 milljónir króna vegna verkefnanna. Þetta kemur fram í frétt ráðuneytisins.
Annars vegar er um að ræða verkefnið „Hreint vatn í krana“ sem snýst um kynningu til ferðamanna sem koma til Íslands um óþarfa þess að kaupa vatn í einnota umbúðum hér á landi.
Vatn á Íslandi sé nánast alls staðar hreint og öruggt til neyslu og af notkun og flutningi plastflaskna hljótist óþarfa loftslagsáhrif og önnur neikvæð umhverfisáhrif. Hannað verður kynningarefni í takt við átakið „Turn the tap on“ og gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samstarfi við atvinnulífið, frjáls félagasamtök, sveitarfélög, veitustofnanir og fleiri.
Hins vegar er um að ræða verkefni sem snýr að kynningu og fræðslu um ofnotkun á einnota plasti. Útbúið verður kynningar- og fræðsluefni fyrir vef- og samfélagsmiðla með skilaboðunum „Notaðu fjölnota“.
Verkefnin tvö tengjast úrgangsforvarnarstefnu umhverfis- og auðlindaráðherra, Saman gegn sóun, sem gildir til ársins 2027 og hefur það meginmarkmið að draga úr myndun úrgangs. Áhersla er lögð á nægjusemi – að nýta betur og minnka sóun – og á fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.