Í gegnum útibú Danske Bank í Eistlandi komu fjármunir frá ýmsum huldufélögum sem gert er ráð fyrir að hafi verið liður í umfangsmiklu peningaþvæti. Samtals var um að ræða um 30 þúsund milljarða króna, sé miðað við gengi krónu gagnvart evru nú, en starfsemi hófst fyrir alvöru 2007 og stóð fram til 2015.
Danska fjármálaeftirlitið hafi vitneskju um hluta af umfanginu en ekkert var aðhafst. Samkvæmt skýrslu sem kynnt var í vikunni má búast við að stór hluti af þessum fjármunum hafi verið ólölega til komnir, að miklu leyti frá Rússlandi.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur kallað sérstaklega eftir því að hið samevrópska eftirlit með bankastarfsemi rannsaki þessa starfsemi Danske Bank, að því er fram kemur í umfjöllun FT. Bankastjóri Danske Bank, Thomas Borgen, hefur þegar sagt af sér vegna málsins, og er búist við því að miklar breytingar verði á helstu stjórnendahlutverkum innan bankans, í stjórn og einnig í hluthafahópi.
Danske Banka stóð tæpt fyrir áratug, þegar fjármálakreppan stóð sem hæst, en danska ríkið greip til þess ráðs á haustmánuðum 2008 að ríkistryggja allt danska fjármálakerfið til tveggja ára, og sinna lausafjárfyrirgreiðslu á þeim grundvelli.