Verðið á tunnunni af hráolíu fór í gær upp fyrir 81 Bandaríkjadal og hefur ekki verið hærra í fjögur ár. Á undanförnum tveimur vikum hefur það hækkað um tíu prósent og það sem af er ári um meira en 45 prósent.
Fastlega er búist við að verðið muni jafnvel hækka upp í þær hæðir sem það var í árið 2014, áður en það tók snögga dýfu niður á við. Þá fór það úr 110 Bandaríkjadölum á tunnuna niður í 25 Bandaríkjadali á ríflega einu og hálfu ári.
Fyrir Ísland er mikil hækkun olíuverðs ekki góð tíðindi. Fyrir flugfélögin, WOW Air og Icelandair, er hækkunin sérlega íþyngjandi, í krefjandi rekstrarumhverfi, og það sama á við um útgerðarfyrirtækin. Almennt á litið þá er hátt verð á olíu ekki gott fyrir Ísland, þar sem það hefur afleidd áhrif á verðlag og ýtir jafnan undir verðbólguþrýsting vegna hærra verðs á innfluttum vörum.
We protect the countries of the Middle East, they would not be safe for very long without us, and yet they continue to push for higher and higher oil prices! We will remember. The OPEC monopoly must get prices down now!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 20, 2018
Ein ástæða þess að verðið hefur hækkað eru viðskiptaþvinganir gagnvart Íran, að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC. Framboðið hefur dregist saman á sama tíma og eftirspurn hefur aukist. Það hefur ýtt verðinu upp á við.
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem beitti sér sérstaklega fyrir viðskiptaþvingunum gagnvart Íran, hefur kallað eftir því að samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) taki ákvörðun um að auka framleiðslu stórkostlega með það að markmiði að lækka olíuverðið. Hann sagði í tísti á Twitter aðgangi sínum, 20. september, að Bandaríkin legðu sitt af mörkum við að tryggja öryggi miðausturlanda en þau beittu sér aðeins fyrir því að hækka olíuverðið. Hann bætti svo við, að þessu myndu Bandaríkin ekki gleyma.