Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að það verði alltaf ódýrast fyrir borgina að fjárfesta í almenningssamgöngum. Þetta sagði Hildur í podcast þættinum Aðförin á Kjarnanum sem nálgast má hér.
Hildur var gestur þáttarins ásamt Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur borgarfulltrúa Pírata og formanni skipulagsráðs borgarinnar og voru skipulags og umferðarmál rædd á víðum grunni í þættinum.
Sigurborg sagði að ljóst væri að ekki kæmust fleiri bílar fyrir á stofnvegakerfinu í dag. Það væri ekki hægt að þenja það meira út. „Stofnvegakerfið er ekkert sérlega gott að mínu mati.“ Sigurborg sagði Borgarlínu tímamót í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu og að ekki væri hægt að nota nægilega sterk orð yfir það hversu miklu línan mun breyta. „Þetta mun hafa áhrif á hvernig við byggjum, þetta mun hafa áhrif á þéttleika, þetta mun hafa áhrif á lífsgæði og það sem mun breytast mest það er viðhorfið. Þegar við sjáum hlutina raungerast og mun breyta framgangi samgangna í borginni til framtíðar.
Hildur sagði pláss vera takmörkuð gæði. „Við sjáum ofboðslega mikið af fólki sem keyrir um á stórum sjö sæta bílum, hver um sig einn í hverjum bíl. Enginn sem hugsar um hversu mikð pláss viðkomandi er að taka fyrir sig einan. Þessu sama fólki finnst gjarnan eðlilegt að notað sé skattfé til að tryggja að það fái að hafa þetta pláss og að það komist algjörlega leiðar sinnar,“ sagði Hildur sem telur eðlilegt og jákvætt að halda áfram vinnu við Borgarlínu.
Hildur segir margar borgir hafa lært að það virki ekki að fjölga akreinum og mislægum gatnamótum og þess í stað hafi þær farið að einbeita sér að almenningssamgöngum. Hún vilji hins vegar vera meðvituð um nákvæman kostnað við Borgarlínuna. „Ég er svona ráðdeildarsöm húsfrú, vil vita hvað þetta kostar.“