Úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismál hefur fellt er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita Fjarðarlax ehf. rekstrarleyfi fyrir 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.
Þetta kemur fram í vef nefndarinnar í dag, en úrskurðurinn hefur verið birtur.
Þá hefur einnig verið felld úr úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 22. desember 2017 um að veita Arctic Sea Farm rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna ársframleiðslu á laxi í opnum sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði.
Málin sem komu inn á borð nefndarinnar byggja á kæru sem saman stóðu að Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, Ari P. Wendel, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, Víðir Hólm Guðbjartsson, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, Atli Árdal Ólafsson, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og veiðifélag Laxár á Ásum.
Í úrskurðarorðunum segir meðal annars, að mat á umhverfisáhrifum í tengslum við fiskeldið í opnum sjókvíum hafi ekki verið framkvæmt nægilega nákvæmlega.
„Það er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir þeirra valkosta sem kærendur hafa nefnt komi ekki til greina í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður hafa verið rakin geta mismunandi valkostir t.d. falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun, tæknilegri útfærslu o.s.frv. er afar ólíklegt að ekki finnist a.m.k. einn annar valkostur sem hægt er að leggja fram til mats svo framarlega sem framkvæmdaraðili sinnir þeirri skyldu sinni að gera víðtæka könnun á þeim kostum sem til greina geta komið. Verður ekki við það unað í mati á umhverfisáhrifum að einungis séu metin umhverfisáhrif eins valkosts. Fer enda þá ekki fram sá nauðsynlegi samanburður umhverfisáhrifa fleiri kosta sem lögbundin krafa er gerð um, allt í þeim tilgangi að leyfisveitandi geti tekið upplýsta afstöðu að fullrannsökuðu máli til þess að meta hvort eða með hvaða hætti hægt sé að leyfa framkvæmd þannig að skilyrði laga séu uppfyllt. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.
Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess rekstrarleyfis sem hér er deilt um. Bar Matvælastofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar. Hvílir og sú skylda á Matvælastofnun skv. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 að gæta þess við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé m.a. ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, eins og áður hefur komið fram.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu leyfisveitingu slíkum annmörkum háða að varði ógildingu rekstrarleyfisins.“
Í nefndinni sem úrskurðar eiga sæti Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.