Kristinn Hrafnsson hefur verið skipaður ritstjóri WikiLeaks. Frá þessu er greint á Twitter-síðu samtakana. Julian Assange, stofnandi og fráfarandi ritstjóri WikiLeaks, verður áfram útgefandi samtakanna.
Kristinn er margreyndur blaðamaður sem starfaði meðal annars hjá Stöð 2, við fréttaskýringaþáttinn Kompás og hjá RÚV. Árið 2010 tók hann þátt í vinnslu frétta sem byggðu á gögnum frá WikiLeaks sem kölluðust „Collateral Murder“. Fyrir það hlaut Kristinn sín þriðju blaðamannaverðlaun hérlendis. Frá 2010 og til 2016 var Kristinn talsmaður WikiLeaks.
Í tilkynningunni sem birt er á Twitter-síðu WikiLeaks segir að skipan Kristins í ritstjórastól sé tilkomin vegna óvenjulegra kringumstæðna sem gera það að verkum að Assange hefur ekki getað tjáð sig í hálft ár, nema þegar lögfræðingar hans heimsækja hann í sendiráðið í London, þar sem hann hefur dvalið árum saman.
Þar er einnig haft erfir Kristni að hann fordæmi meðferðina á Assange sem hafi leitt til nýja starfs hans, en að hann fagni þeirri ábyrgð sem fylgi því að halda áfram því mikilvæga starfi sem WikiLeaks sinni.